
Stjarnan/Álftanes stóð uppi sem Íslandsmeistari í 3. flokki kvenna í ár eftir æsispennandi titilbaráttu við sameinað lið Norðlendinga.
Þór/KA/KF/Dalvík lagði Stjörnuna/Álftanes að velli í fyrstu umferð Íslandsmótsins og var titilbaráttan í þeirra höndum þar til þær töpuðu nokkuð óvænt gegn FH í næstsíðustu umferð.
Þegar það gerðist var HK komið í bílstjórasætið, en tapaði gríðarlega mikilvægum leik gegn Stjörnunni/Álftanesi í næstsíðustu umferð. Staðan var 0-0 í hálfleik en Stjarnan/Álftanes skoraði fimm mörk eftir leikhlé til að vinna 5-1.
Þegar komið var í lokaumferðina var Þór/KA/KF/Dalvík aftur komið á toppinn. Norðlendingar voru með jafn mörg stig og Garðbæingar og talsvert betri markatölu í þokkabót.
Norðlendingar heimsóttu HK og unnu leikinn 0-1 en tókst þrátt fyrir það ekki að vinna Íslandsmótið vegna stórsigurs hjá Stjörnunni/Álftanesi gegn RKVN, sameinuðu liði Reynis Sandgerði, Keflavíkur, Víðis Garði og Njarðvíkur.
Stjarnan/Álftanes vann þann leik 14-1 og vann þannig Íslandsmótið á markatölu eftir gríðarlega spennu.
Þjálfarar Stjörnunnar eru þeir Hilmar Árni, Jóhannes Gauti og S. Hilmar.
Athugasemdir