Breiðablik tók á móti Fram á Kópavogsvelli í kvöld í fjörugum markaleik en leiknum lauk með 3-1 sigri heimamanna og var það langþráður sigur en Breiðablik hafði fyrir það ekki unnið leik í Bestu deildinni síðan 19. júlí. Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, var nokkuð sáttur með sigurinn og þá sérstaklega fyrri hálfleikinn.
„Þetta var frábær hálfleikur af okkar hálfu og mjög kraftmikil byrjun, eins og við höfum byrjað mikið af okkar leikjum og það munar auðvitað heilmiklu að skora mörk og það breytir öllu. Það gerði mikið fyrir okkur og mér fannst við frábærir í fyrri hálfleik og megnið af seinni hálfleik. Svo þurftum við aðeins að fara neðar á völlinn og við börðumst vel, þannig að þetta var bara virkilega góður leikur hjá liðinu."
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 0 FH
Breiðablik hefur átt í stökustu vandræðum við að vinna leiki en þeir voru mjög öruggir í öllum sínum aðgerðum og spiluðu virkilega vel en þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Höfðu einhverjir orð á því að fyrri hálfleikurinn hafi verið einn besti hálfleikur sem Breiðablik hefur leikið í sumar.
„Nei, nei ég myndi ekki segja það. Við höfum átt marga góða hálfleiki og oft hefur það skilað ágætis niðurstöðu og úrslitum en stundum því miður og alltof oft höfum við ekki nýtt yfirburðina, til þess að komast yfir og skora mörk en við höfum átt marga góða hálfleiki og þetta var ekkert ósvipuð byrjun og hefur verið í mörgum af okkar leikjum."
Með sigri Breiðabliks á Fram í kvöld eiga Breiðablik enn möguleika á evrópusæti en þeir eru tveimur stigum á eftir Stjörnunni, sem er í þriðja sæti Bestu deildar karla.
„Ég er alltaf bjartsýnn og við mætum í alla leiki til þess að vinna. Ég held að andlega gefi það mikið að klára leikinn í dag og að sjálfsögðu erum við bjartsýnir. Tveir spennandi leikir fram undan gegn virkilega sterkum andstæðingum."
VIðtalið má nálgast í heild sinni í spilaranum að ofan.