Real Madrid undirbýr risatilboð í Rodri - Maguire orðaður við Sádi-Arabíu - Olise í stað Salah?
   sun 05. október 2025 10:00
Ívan Guðjón Baldursson
Steve Bruce rekinn (Staðfest)
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Hinn 64 ára gamli Steve Bruce var í gær rekinn úr þjálfarastöðu sinni hjá Blackpool FC í þriðju efstu deild á Englandi, League One.

Bruce er rekinn eftir rétt rúmt ár við stjórnvölinn hjá Blackpool, sem hefur byrjað nýtt tímabil hörmulega og er aðeins með 8 stig eftir 11 umferðir þegar markmiðið er að berjast um umspilssæti fyrir Championship deildina. Blackpool styrkti leikmannahópinn sinn umtalsvert í sumar og vilja stjórnendur sjá árangur.

Bruce er gífurlega reyndur þjálfari sem hefur meðal annars þjálfað Crystal Palace, Aston Villa og Newcastle United á ferli sínum. Hann er með yfir 1000 leiki að baki sem þjálfari eftir að hafa verið mikilvægur hlekkur í liði Manchester United á ferli sínum sem leikmaður, þar sem hann bar fyrirliðaband félagsins í fjögur ár.

Blackpool endaði í níunda sæti á síðustu leiktíð en hörmuleg byrjun á nýju tímabili þykir ekki viðunandi þar á bæ. Bruce var rekinn eftir 0-2 tap á heimavelli gegn Wimbledon, sem er sjöunda tap Blackpool á deildartímabilinu.

Hluti þjálfarateymisins yfirgefur félagið með Bruce og mun Steve Banks taka við sem bráðabirgðaþjálfari þar til arftaki finnst.

„Ég hef engar afsakanir eftir þetta tap, við vorum hvergi nálægt því að vera nægilega góður og ég þarf að taka ábyrgð á því," sagði Bruce meðal annars eftir tapið gegn Wimbledon á heimavelli þar sem áhorfendur bauluðu á sína menn eftir lokaflautið.

Síðasta þjálfarastarf Steve Bruce var hjá West Bromwich Albion en hann var rekinn þaðan í október 2022 og héldu margir að hann ætlaði ekki að snúa aftur í þjálfun, sem hann gerði þó síðasta haust.
Athugasemdir
banner