Njósnarar Arsenal fylgjast með Yildiz og Chelsea gerði tilboð sem Juventus hafnaði - Reguilon er í viðræðum við Inter Miami
   mán 06. október 2025 13:00
Innkastið
„Eins og maður sem veit stöðuna sína"
Margir góðir sigrar, en enginn stór titill.
Margir góðir sigrar, en enginn stór titill.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Srdjan Tufegdzic, Túfa, sem er þjálfari Vals, var í athyglisverðu viðtali á SÝN Sport eftir sigur Vals á Stjörnunni á laugardag. Valur fór langt með að tryggja sér Evrópusæti með sigrinum, en tvær umferðir eru eftir. Valur hafði verið í titilbaráttu í nokkra mánuði áður en það fór að halla undan fæti og ekki nægilega góð úrslit síðustu vikurnar fóru með séns Valsara á titlinum. Á meðan unnu Víkingar sína leiki og innsigluðu svo titilinn í gær.

En að viðtalinu, Túfa sendi þar sérfræðingum um Bestu deildina tóninn.

„Eina sem hefur legið þungt á mér persónulega er að liðið hefur ekki unnið leiki að undanförnu. Það er þungt fyrir mig að missa menn í meiðsli sem voru geggjaðir. Á þeim tímapunkti var ekkert betra lið á Íslandi en Valur – þegar við vorum með alla okkar leikmenn. Í öllum okkar keppnum höfum við farið alla leið. Við unnum Lengjubikarinn, fórum í úrslit í bikarnum og höfum verið eina liðið að veita Víkingi samkeppni – liði sem hefur tekið yfir íslenskan fótbolta ásamt Breiðabliki. Ég held að ég sé eini þjálfari í heiminum sem hefur verið í slíkri neikvæðri umræðu hjá fólki sem ég veit ekkert hvað þau vita mikið um fótbolta og lið sem er alltaf að gera sitt besta. Lið með identity sem hefur ekki verið til staðar hjá Val undanfarin ár. Lið sem er á öllum vígstöðvum að keppa um fyrsta sæti," sagði Túfa.

Umrætt viðtal var til umræðu í Innkastinu þar sem þriðja síðasta umferð Bestu deildarinnar var gerð upp. Elvar Geir Magnússon, Valur Gunnarsson og Sigurbjörn Örn Hreiðarsson ræddu viðtalið.

„Hann er að verja sína stöðu, spjótin hafa svolítið beinst að honum og það er pressa að þjálfa Val," sagði Elvar og spurði Bjössa hvernig honum fannst svar Túfa.

„Að mörgu leyti gerði hann það vel, það er alveg hárrétt að það hafa orðið meiðsli hjá Val og fyrir mér eru Frederik (Schram) og Patrick (Pedersen) tveir af bestu leikmönnum Íslandsmótsins. Þetta er ótrúlegt högg að missa þessa tvo leikmenn. Hins vegar er liðið það sterkt, með það sterkum einstaklingum, að það er ekki hægt að væla yfir þessu endalaust, bara áfram gakk. Svo færðu á þig gagnrýni og þú ert í Val sem er að mínu viti stærsti klúbbur landsins. Það er krafa að þú vinnir titilinn á hverju ári, og ef það er ekki að gerast þá koma spjótin alls staðar að. Það er eitthvað sem þú tekur á kassann. Mér finnst sumt ósanngjarnt, ég er alveg sammála honum, en það verður alltaf þannig. 2019 vorum við búnir að vinna titla fjögur ár í röð en það byrjaði ævintýraleg orrahríð, alls konar bull og þvæla. Maður lærði að taka þetta á kassann og tala um þetta eftir tímabilið. Þú ert í Val, taktu þetta á kassann, ekki pæla í því hvað aðrir segja, það eru bara úrslitin sem telja," sagði Bjössi sem var aðstoðarmaður Vals í þjálfaratíð Ólafs Jóhannessonar og er líka mjög stórt nafn á Hlíðarenda eftir leikmannaferilinn.

„Ég er að mörgu leyti sammála því, mér fannst hann í þessu viðtali að mörgu leyti eins og maður sem veit stöðuna sína. Þess vegna er hann að benda á að þeir hafa verið inni í öllum keppnum. Ég held að hann hefði ekkert nefnt þetta nema hann taki mark á umræðunni sem hefur verið í gangi, verið að orða menn við starfið hans. Ég held hann sé þess vegna að benda á þetta og fannst það skína í gegn. Ég held að það sé alveg rétt hjá honum að hann hafi ástæðu til að efast um starfið sitt, það er það sem maður heyrir," sagði Valur.

Þáttinn má nálgast hér að neðan.
Innkastið - Stóru málin með Bjössa Hreiðars
Athugasemdir
banner