Real Madrid undirbýr risatilboð í Rodri - Maguire orðaður við Sádi-Arabíu - Olise í stað Salah?
   sun 05. október 2025 18:15
Ívan Guðjón Baldursson
Tómas Óli fékk tækifæri með AGF - Elías Rafn bekkjaður
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: EPA
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Hinn 17 ára gamli Tómas Óli Kristjánsson er gríðarlega efnilegur og kom við sögu í sínum fyrsta leik með sterku liði AGF í danska boltanum í dag.

AGF vann 3-1 gegn Silkeborg og er með fjögurra stiga forystu á toppi Superliga. Fótbolti.net er meðal fjölmiðla sem greindi frá því í gær að Tómas Óli hafði verið færður upp í aðalliðið hjá AGF eftir frábæra frammistöðu með unglingaliðunum.

Hann fékk strax að koma við sögu í dag og er ljóst að þjálfarateymið í Árósum hefur miklar mætur á þessum leikmanni. Tómas fékk að spila síðustu mínúturnar gegn Silkeborg.

Á sama tíma gerði FC Midtjylland, sem er í öðru sæti deildarinnar, jafntefli í stórleiknum gegn FC Kaupmannahöfn. Þar var Elías Rafn Ólafsson bekkjaður eftir að hafa varið mark liðsins í síðustu leikjum.

Elías fékk tvö mörk á sig á útivelli gegn Nottingham Forest í miðri viku en stóð sig vel í leiknum og því kemur þessi ákvörðun þjálfarans á óvart. Hinn þaulreyndi Jonas Lössl varði markið gegn FCK.

Hinn 17 ára gamli Viktor Bjarki Daðason var ónotaður varamaður í liði Kaupmannahafnar.

Í norska boltanum lék Viðar Ari Jónsson allan leikinn í jafntefli hjá HamKam gegn Fredrikstad. HamKam er í harðri fallbaráttu, með 25 stig eftir 24 umferðir. Liðið er einu stigi fyrir ofan fallsvæðið þega sex umferðir eru eftir af deildartímabilinu.

Í Grikklandi kom Hörður Björgvin Magnússon við sögu í stórsigri hjá Levadiakos gegn Panetolikos. Hörður hefur átt erfitt uppdráttar vegna mikilla meiðslavandræða á undanförnum árum og vonast núna til að finna aftur góðan takt í herbúðum nýs félags.

Þá var eitthvað um ónotaða varamenn í dag, þar sem Kolbeinn Birgir Finnsson, Hlynur Freyr Karlsson, Oliver Stefánsson, Hinrik Harðarson og Gísli Gottskálk Þórðarson komu ekki við sögu.

Brynjar Ingi Bjarnason var að lokum ekki með Greuther Furth í B-deild þýska boltans vegna veikinda.

AGF 3 - 1 Silkeborg

FC Kaupmannahöfn 1 - 1 FC Midtjylland

Fredrikstad 1 - 1 HamKam

Levadiakos 6 - 0 Panetolikos

Feyenoord 3 - 2 Utrecht

Brommapojkarna 1 - 3 Hacken

GKS Katowice 0 - 1 Lech Poznan

LKS Lodz 3 - 1 Tychy

Stabæk 2 - 2 Odd

Greuther Furth 2 - 2 Hannover

Athugasemdir
banner
banner