Breiðablik vann eftir tveggja og hálfs mánaða bið
Víkingur R. tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn 2025 með sigri gegn FH í Víkinni í kvöld á meðan Breiðablik lagði Fram að velli til að ná í langþráðan sigur.
Víkingur R. 2 - 0 FH
1-0 Valdimar Þór Ingimundarson ('9)
2-0 Helgi Guðjónsson ('84)
Lestu um leikinn: Víkingur 2 - 0 FH
Víkingar byrjuðu mun betur og komust tvisvar sinnum nálægt því að skora áður en Valdimar Þór Ingimundarson tók forystuna á níundu mínútu. Valdimar skoraði auðvelt mark eftir góða pressu frá Gylfa Þór Sigurðssyni sem vann boltann hátt uppi og gaf hann strax til Valdimars.
Víkingar voru áfram sterkara liðið á vellinum en FH-ingar komust hægt og rólega inn í leikinn. Kjartan Kári Halldórsson skaut í slána úr aukaspyrnu og vildu FH-ingar svo fá vítaspyrnu en ekkert var dæmt. Staðan var því 1-0 eftir fjörugan fyrri hálfleik.
Síðari hálfleikurinn var jafn þar sem liðin skiptust á að sækja en áttu í erfiðleikum með að skapa sér færi. Leikurinn róaðist niður þegar tók að líða á seinni hálfleikinn, þar til Víkingar tvöfölduðu forystuna sína. Í þetta sinn skoraði Helgi Guðjónsson með flottum skalla eftir frábæran undirbúning frá Karli Friðleifi Gunnarssyni.
Gylfi átti svakalegan sprett undir lokin sem var næstum orðinn að þriðja marki Víkinga en boltinn endaði í hornspyrnu. FH reyndi að minnka muninn í uppbótartíma en tókst ekki, svo lokatölur urðu 2-0. Víkingur er því Íslandsmeistari í þriðja sinn á fimm árum.
Breiðablik 3 - 1 Fram
1-0 Kyle McLagan ('4, sjálfsmark)
2-0 Höskuldur Gunnlaugsson ('22)
2-1 Jakob Byström ('40)
3-1 Kristinn Jónsson ('45+3)
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 1 Fram
Í Kópavogi þurftu heimamenn í Breiðabliki á sigri að halda eftir sex jafntefli og þrjú töp í síðustu níu deildarleikjum. Liðið hafði ekki unnið deildarleik síðan 19. júlí og mættu lærisveinar Halldórs Árnasonar hungraðir til leiks í dag.
Þeir áttu góð færi á upphafsmínútunum og tóku forystuna þegar Kyle McLagan setti boltann óheppilega í eigið net eftir fyrirgjöf frá Kristni Jónssyni.
Blikar voru miklu betri og tvöfaldaði Höskuldur Gunnlaugsson forystuna með góðu skoti við vítateigslínuna á 22. mínútu.
Framarar náðu að minnka muninn þvert gegn gangi leiksins eftir langan bolta fram á 40. mínútu. Blikar voru fljótir að svara fyrir sig og tvöfölduðu forystuna á ný eftir aukaspyrnu frá Kristni sem breytti um stefnu í varnarveggnum og endaði í netinu. Staðan var því 3-1 í leikhlé.
Það slokknaði á Blikum í síðari hálfleik og fengu gestirnir í liði Fram bestu færin, en tókst þó ekki að skora. Lokatölur 3-1 fyrir Breiðabliki sem er enn með í baráttunni um Evrópusæti.
Athugasemdir