Hörður Björgvin Magnússon spilaði sinn fyrsta leik með Levadiakos er liðið valtaði yfir Panetolikos, 6-0, í grísku úrvalsdeildinni í dag.
Miðvörðurinn samdi við Leviadakos á dögunum eftir að hafa yfirgefið Panathinaikos í sumar.
Hann hefur æft stíft með liðinu síðustu vikur og þreytti loks frumraun sína er hann kom inn af bekknum þegar sjö mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Þetta var fyrsti keppnisleikur hans síðan hann lék með Panathinaikos í lokaumferð grísku deildarinnar á síðustu leiktíð, en hann lék einnig hálfleik með landsliðinu í æfingaleik gegn Skotum í sumar.
Levadiakos er að gera vel í grísku deildinni en það situr í 4. sæti með 10 stig eftir sex leiki, aðeins fjórum stigum frá toppnum.
Daníel Tristan Guðjohnsen byrjaði í slæmu 5-1 tapi Malmö gegn Sirius í sænsku úrvalsdeildinni.
Framherjinn var einn af skástu leikmönnum Malmö í leiknum en Arnór Sigurðsson var ekki með vegna meiðsla.
Malmö er í 7. sæti með 42 stig, þremur stigum frá Evrópusæti þegar fjórar umferðir eru eftir.
Athugasemdir