Bayern vill Bernardo Silva - Skotlmark Man Utd og Liverpool vill fara til Real - Ensk félög horfa til Kimmich
   lau 18. maí 2024 17:44
Ívan Guðjón Baldursson
McKenna ofarlega á óskalista Brighton
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Brighton er í leit að nýjum þjálfara til að taka við í sumar og greinir Sky Sports frá því að Kieran McKenna er ofarlega á óskalista stjórnenda félagsins.

Roberto De Zerbi heldur ekki áfram með Brighton eftir tímabilið og líta stjórnendur á McKenna sem fullkominn arftaka eftir að hafa gert frábæra hluti við stjórnvölinn hjá Ipswich.

McKenna tók við Ipswich í desember 2021 og kom liðinu upp úr League One deildinni á næstu leiktíð þar á eftir.

Sem nýliðar í Championship deildinni stóðu lærisveinar McKenna sig ótrúlega vel. Þeir gerðu sér lítið fyrir og blönduðu sér í titilbaráttuna við Leicester City og Leeds United og enduðu í öðru sæti - sem veitir beinan þátttökurétt í ensku úrvalsdeildina.

McKenna afrekaði því að fara með Ipswich upp um tvær deildir á tveimur árum og eru mörg félög áhugasöm um að nýta sér krafta hans. Það eru 22 ár síðan Ipswich var síðast í efstu deild.

Síðasta félag til að fara úr League One og upp í úrvalsdeildina á tveimur árum var Southampton 2010-2012.

McKenna er aðeins 38 ára gamall og þótti gríðarlega efnilegur fótboltamaður á yngri árum, en þrálát meiðsli á nára komu í veg fyrir atvinnumannaferil.

McKenna er uppalinn á Norður-Írlandi og lék 12 landsleiki fyrir U19 og U21 landsliðin. Hann var fenginn til Tottenham aðeins 16 ára gamall og bauð félagið honum starf sem þjálfari þegar í ljós kom að ekkert yrði úr draumi hans um að verða atvinnumaður í fótbolta.

Hann vann sig upp metorðastigann hjá Tottenham og tók við U18 liði félagsins tímabilið 2015-16. Hann gerði flotta hluti þar og var ráðinn yfir til Manchester United þar sem hann þjálfaði U18 liðið frá 2016 til 2018.

McKenna á þrjú ár eftir af samningi sínum við Ipswich eftir að hafa gert nýjan samning við félagið í fyrrasumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner