Greint hefur verið frá því á síðustu dögum að Elías Már Ómarsson sé að skrifa undir risasamning í kínversku deildinni.
Fjölmiðlar í Kína halda því fram að Elías Már sé að skrifa undir hjá Meizhou Hakka, sem er í 14. sæti af 16 í efstu deild kínverska boltans. Meizhou er fjórum stigum fyrir ofan fallsæti, með átta tapleiki í röð í öllum keppnum.
Í þessum átta leikjum hefur liðinu aðeins tekist að skora fjögur mörk og því er brýn þörf á markaskorara.
Elías Már kemur á frjálsri sölu en hann er 30 ára gamall og skoraði 8 mörk í 32 leikjum í efstu deild hollenska boltans á síðustu leiktíð, þar sem hann hjálpaði NAC Breda að halda sæti sínu í deildinni.
Meizhou leikur á 27 þúsund manna leikvangi og var þjálfari liðsins Milan Ristic rekinn á dögunum vegna slæms gengis. Næsti leikur liðsins er 19. júlí.
Elías verður fjórði Íslendingurinn til að spila í kínversku úrvalsdeildinni á eftir Viðari Erni Kjartanssyni, Sölva Geir Ottesen og Eiði Smára Guðjohnsen.
Elías hefur meðal annars spilað fyrir Göteborg og Vålerenga á ferli sínum en hann er uppalinn í Keflavík. Hann á 9 A-landsleiki að baki.
07.07.2025 16:00
Elías Már að skrifa undir stóran samning í Kína
Athugasemdir