Sancho, Sesko, Mac Allister, Ten Hag, Raya og fleiri góðir koma við sögu
   fös 10. maí 2024 15:53
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Landsliðsmarkverðirnir báðir að byrja núna - „Samkeppni um allar stöður"
Auður byrjaði síðasta leik Stjörnunnar.
Auður byrjaði síðasta leik Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aldís Guðlaugsdóttir.
Aldís Guðlaugsdóttir.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Markverðirnir Aldís Guðlaugsdóttir og Auður Scheving Sveinbjörnsdóttir fengu báðar að byrja hjá sínum liðum í síðustu umferð Bestu deildarinnar, en þær eru báðar í kringum landsliðið og eru í baráttu um að vera í næsta landsliðshópi.

Aldís hafði byrjað fyrstu tvo leikina á bekknum hjá FH, en kom inn gegn Breiðabliki í þriðju umferð. Hún byrjaði svo líka gegn Þrótti í síðustu umferð, hélt hreinu og var valin í lið umferðarinnar.

„Það er bara samkeppni um allar stöður. Aldís er í Bandaríkjunum (í skóla) en hún er á landinu núna. Hún var í markinu í dag og stóð sig mjög vel eins og aðrir FH-ingar. Það er bara val þjálfarans hverju sinni hverjar byrja inn á, hverjar koma inn á og svo framvegis. Í dag var Aldís í markinu og hún stóð svo sannarlega fyrir sínu," sagði Guðni Eiríksson, þjálfari FH, eftir síðasta leik gegn Þrótti.

Auður spilaði þá sinn fyrsta leik í sumar þegar Stjarnan tapaði 5-1 gegn Breiðabliki. Erin McLeod, sem er fyrrum landsliðsmarkvörður Kanada, hafði byrjað fyrstu þrjá leikina þar á undan.

„Það eru nánast tveir leikir í viku og það er of þétt fyrir Erin að spila svo mikið," sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leikinn gegn Breiðabliki en Erin er 41 árs gömul.

„Auður kom inn og stóð sig bara fínt. Við stefnum að því að hún spili töluvert í sumar. Léttum aðeins á Erin sem er líka inn í þjálfarahópnum. Hún er að taka ákveðna hluti í þjálfuninni og það heyrist mikið í henni."

Hvernig verður markvarðarsveitin?
Það styttist í það að landsliðshópur verði tilkynntur fyrir afar mikilvægt verkefni gegn Austurríki í undankeppni fyrir Evrópumót kvenna 2025.

Ísland er með þrjú stig í riðlinum eftir sigur gegn Póllandi og tap gegn Þýskalandi. Með því að ná í góð úrslit í báðum leikjunum sem eru framundan gegn Austurríki, þá getur Ísland komist langleiðina á Evrópumótið.

En hvernig verður markvarðarsveitin eiginlega í því verkefni?

Fanney Inga Birkisdóttir, markvörður Íslandsmeistara Vals, verður nú líklega í hópnum og talsvert miklar líkur eru á því að hún muni byrja. En annars er þetta nokkuð óvíst. Telma Ívarsdóttir er að glíma við meiðsli og þá eru Aldís og Auður, sem hafa verið í hópnum, inn og út úr liðum sínum. Cecilía Rán Rúnarsdóttir er að koma til baka eftir erfið meiðsli og gerir tilkall að komast aftur í hópinn ef hún er komin nógu langt í sínu endurhæfingarferli.
Guðni Eiríks: Sól og blíða og gleði í FH hjörtum í dag
Kristján svekktur: Ætla ekki að trúa því að þetta komi fyrir aftur
Athugasemdir
banner
banner
banner