Sancho, Sesko, Mac Allister, Ten Hag, Raya og fleiri góðir koma við sögu
   fös 10. maí 2024 16:00
Elvar Geir Magnússon
Óvænta hetjan í Meistaradeildinni sem floppaði hjá Stoke og Newcastle
Óvænta hetjan Joselu.
Óvænta hetjan Joselu.
Mynd: Getty Images
Í leik með Stoke á sínum tíma.
Í leik með Stoke á sínum tíma.
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Real Madrid var á barmi þess að falla úr Meistaradeildinni í vikunni en fékk hetju úr óvæntri átt. Hinn 34 ára gamli Joselu kom af bekknum og skoraði tvö mörk, þau skiluðu Real samanlögðum 4-3 sigri í undanúrslitaeinvíginu gegn Bayern München.

Joselu nýtti sér sjaldséð mistök markvarðarins Manuel Neuer þegar hann jafnaði einvígið á 88. mínútu og skoraði svo sigurmarkið í byrjun uppbótartímans.

Joselu er 34 ára og aðdáendur enska boltans muna eftir honum frá Stoke City og Newcastle þar sem hann gerði ekki merkilega hluti. En röð atburða gerðu það að verkum að hann gekk að nýju í raðir Real Madrid fyrir tímabilið.

Eftir að Karim Benzema fór til Sádi-Arabíu þurfti Real Madrid að fá inn sóknarmann. Joselu varð lendingin þó hann hafi svo sannarlega ekki verið efstur á blaði í upphafi.

Joselu var fáanlegur á láni frá Espanyol eftir fall liðsins úr efstu deild. Hann skoraði sautján mörk fyrir félagið á síðasta tímabili og nú skorað sautján mörk í 46 leikjum fyrir Real Madrid á þessu tímabili. Í 30 af þeim leikjum hefur hann komið inn sem varamaður.

„Ég held að hann muni ekki sofa mikið í nótt. Hann á þetta allt skilið. Hann hefur verið ótrúlegur liðsmaður allt tímabilið. Þetta er kvöldið hans," sagði Jude Bellingham um liðsfélaga sinn.

Joselu sjálfur sagði að jafnvel hann hefði ekki getað ímyndað sér þessa atburðarás.

„Mann dreymir alltaf um svona frammistöðu, en ekki einu sinni mínir stærstu og fallegustu draumar ná ekki yfir það sem átti sér stað," sagði Joselu.

Joselu var keyptur af Mark Hughes þáverandi stjóra Stoke fyrir 5,75 milljónir punda frá Hannover í júní 2015. Hann náði ekki að heilla með Stoke og Newcastle á Englandi og stuðningsmenn þessara liða ráku margir upp stór augu þegar Joselu skoraði tvívegis í undanúrslitaleiknum í vikunni.

Hann skoraði aðeins fjögur mörk í 27 leikjum fyrir Stoke á árunum 2015-16 og var síðan lánaður til Deportivo La Coruna, áður en hann fór til Newcastle fyrir fimm milljónir punda. Hann skoraði aðeins sjö mörk í 52 leikjum fyrir Newcastle á tveimur tímabilum áður en hann fór aftur til Spánar. Hann hefur síðan alltaf náð tveggja stiga tölu í markaskorun.

„Maður bjóst aldrei við því að segja „Joselu kom til bjargar“. Hann hefur verið gagnrýndur talsvert fyrir færi sem hann hefur ekki nýtt en hverjum er ekki sama þegar hann framkallar svona augnablik," segir Steve McManaman fyrrum leikmaður Real Madrid.

Þegar Real mætti Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2022 þá var Joselu í París sem stuðningsmaður Real. Núna, tveimur árum síðar, tryggði hann liðiðnu farseðilinn á Wembley. Real Madrid mun mæta Borussia Dortmund í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þann 1. júní.
Athugasemdir
banner
banner
banner