Man Utd reynir við Branthwaite - Slot hefur áhuga á Watkins - Sesko efstur á blaði Arsenal
   mið 11. nóvember 2020 11:15
Þórir Hákonarson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Góður félagi íslenskrar knattspyrnu fallinn frá – Dirk Harten
Þórir Hákonarson
Þórir Hákonarson
Mynd: Aðsend
Mynd: Aðsend
Góður félagi íslenskrar knattspyrnu, þýski íþróttablaðamaðurinn Dirk Harten, er fallinn frá eftir baráttu við krabbamein en hann lést s.l. mánudag aðeins 58 ára gamall.

Dirk Harten byrjaði að heimsækja Ísland og íslenska knattspyrnuvelli árið 2011 og var árlegur gestur á skrifstofum KSÍ frá þeim tíma og svo síðar jafnframt á skrifstofu Þróttar í Laugardalnum en hann var afar duglegur að kíkja ávallt við þegar hann var að ferðast um Ísland, taka ljósmyndir af völlum og skrifa pistla um knattspyrnuna hér.

Hann hafði sett sér það takmark að sjá leiki á 100 mismunandi knattspyrnuvöllum og haustið 2019 hafði hann náð nær 90 leikvöllum og ætlunin var að ná svo markmiðinu sumarið 2020 en af augljósum utanaðkomandi ástæðum og heimsfaraldri varð því miður ekkert af því. Hann átti sannarlega sín uppáhaldslið hér á landi, Stjörnuna og KR, en umfram allt var hann mikill aðdáandi þess umhverfis sem fótboltinn á Íslandi hrærist í og ferðaðist hingað árlega með fjölskyldu sinni í nærri áratug. Árangur íslenskra landsliða vakti jafnframt mikla hrifningu hans og var hann öflugur stuðningsmaður okkar liða, mætti á allnokkra leiki hér heima og eins á erlendri grundu.

Steinþór Guðbjartsson blaðamaður Morgunblaðsins tók viðtal við Dirk haustið 2019 þar sem hann fer stuttlega yfir þennan skemmtilega tíma í tengslum við Ísland og áhuga hans á landi og þjóð.

Dirk fylgdist ekki bara með fótboltanum hérna heldur var hann líka með puttann á púlsinum varðandi ýmsa þá sem hann kynntist hér, þ.á.m. undirritaðan, en ég var eitt sinn staddur í eftirliti á vegum UEFA á leik í Þýskalandi þegar allt í einu birtist maður í íslenskum landsliðsfatnaði, búinn að ferðast nokkur hundruð kílómetra frá heimabæ sínum í Rostock, tala sig í gegnum öryggisgæslu á viðkomandi velli og mættur inn á leikmannagang til þess að heilsa upp á mig.

Þarna var Dirk mættur en hafði séð í rafrænni leikskrá að ég væri eftirlitsmaður á leiknum og ákvað að skella sér til að eiga stutt spjall um fótboltann á Íslandi og hvernig planið hjá honum væri sumarið eftir á Íslandi, hvaða velli hann ætlaði að heimsækja, hvort ég þekkti einhverja á tilteknum stöðum o.s.frv. Ótrúlega óvænt og skemmtileg heimsókn sem kom mér gjörsamlega í opna skjöldu en lýsir ágætlega manngerðinni.

Merkismaður sem tekið hefur þátt í að skrifa og mynda sögu fótboltans á Íslandi er fallinn frá. Ég kveð góðan félaga íslenskrar knattspyrnu og votta aðstandendum samúð við fráfall Dirk Harten.

Þórir Hákonarson
Íþróttastjóri Þróttar
Athugasemdir
banner
banner
banner