Carrick gæti stýrt æfingu Man Utd á miðvikudag - Everton vill White frá Arsenal - Dortmund fylgist með Bobb
   mán 12. janúar 2026 12:30
Kári Snorrason
„Þú svarar þinni eigin spurningu, það eru öll lið komin með þetta nema Víkingur“
Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi.
Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH er meðal liða sem nýta GoalUnit.
FH er meðal liða sem nýta GoalUnit.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur hefur verið í stefnumótunarvinnu með GoalUnit.
Valur hefur verið í stefnumótunarvinnu með GoalUnit.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik er sömuleiðis lið sem hefur nýtt GoalUnit í sinni vinnu.
Breiðablik er sömuleiðis lið sem hefur nýtt GoalUnit í sinni vinnu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sænska fyrirtækið GoalUnit hefur komið eins og stormsveipur inn í íslenskan fótbolta og hafa mörg lið byrjað að nýta sér krafta GoalUnit.

GoalUnit er fyrirtæki sem sérhæfir sig í vinnu með íþróttafélögum. Það nýtir gagnavinnslu og er stefnumótandi hugbúnaður varðandi samsetningu leikmannahópa. Sú tækni á að geta aukið söluverðmæti leikmanna.

Félög hafa skilgreint gildi sín og á fyrirtækið að hjálpa við að stuðla að þessum gildum, þar sem lögð er áhersla á að horfa til framtíðar. Öll félög í Bestu deildinni hafa aðgang að hugbúnaðinum. Meðal liða sem hafa opinberlega sagst nýta GoalUnit er Valur, FH og Breiðablik.

Eitt lið sem hefur ekki innleitt stefnu GoalUnit eru Íslandsmeistarar Víkings. Fótbolti.net ræddi við Kára Árnason, yfirmann fótboltamála Víkings, og spurði hann út í hvort að hann hefði trú á því sem sænska fyrirtækið hefur upp á að bjóða.

Stendur á girðingunni
„Þú ert að svara þinni eigin spurningu, það eru öll lið komin með þetta nema Víkingur,“ segir Kári léttur og heldur áfram: „Þetta á kannski vel við um mörg lið. Ég ætla ekki að fara að gagnrýna þetta, ég hef ekki kynnt mér þetta nægilega vel.

En ég ætla að standa á girðingunni með þetta. Ég tel að við séum að gera ágætis hluti í Víking. Við fylgjum okkar stefnu hverju sinni. Ég er alveg með aðgengi að GoalUnit og skoða þetta alveg. Kannski er þetta alveg æðislegt og þeir sýndu svo sannarlega fram á að þetta væri æðislegt en við sjáum til hvernig þetta gengur í innleiðingu.“


Hugsað um framtíðina frekar en núið
Kemur það ykkur að einhverju leyti til góðs að önnur lið einblíni frekar á framtíðina?

„Það hefur auðvitað verið vinsælt í fótbolta svolítið lengi núna að selja leikmenn sem eru með framtíðarsöluvörur. Það er ekki verið að hugsa um núið heldur frekar fram í tímann.

Síðan eru þau kannski ekki með innviðina til að hjálpa leikmönnunum að verða góðir. Oft er þeim ekkert endilega hjálpað og þá þarf að afskrifa þessa peninga, því að leikmennirnir taka engum framförum – nema náttúrulegum framförum með því að spila leiki.“


Þið hafið þá aldrei alvarlega íhugað að innleiða þetta í stefnu Víkings?

„Þetta höfum við rætt en við ætlum að halda okkar stefnu út af fyrir okkur,“ sagði Kári að lokum.

Mikið í umræðunni
Fyrirtækið hefur verið mikið í umræðunni síðustu misseri. Það vakti mikla athygli þegar Breiðablik kynnti GoalUnit fyrir alla yngri flokka þjálfara félagsins en Halldór Árnason, þáverandi þjálfari liðsins, var fjarverandi.

Þá gagnrýndi Pétur Pétursson, fyrrum þjálfari kvennaliðs Vals, orðræðu Kristins Inga Lárussonar, stjórnarmanns í Val, er hann sagði of oft tjaldað til einnar nætur í ítarlegu viðtali um framtíðarstefnu Vals í Útvarpsþætti Fótbolta.net.

Þegar FH kynnti Jóhann Karl Guðjónsson til leiks sem nýjan þjálfara liðsins var ný stefna félagsins sömuleiðis kynnt og spilaði GoalUnit þar stóra rullu.
Athugasemdir
banner
banner
banner