Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 12. ágúst 2022 09:30
Ívan Guðjón Baldursson
L'Equipe: Lyon hafnaði tilboði frá Forest í Aouar
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

L'Equipe greinir frá því að Lyon sé búið að hafna tilboði frá Nottingham Forest í miðjumanninn Houssem Aouar.


Aouar er 24 ára gamall og hefur verið eftirsóttur á undanförnum árum. Engu liði hefur þó tekist að kaupa hann vegna verðmiða Lyon sem byrjaði í rúmlega 60 milljónum evra en lækkaði umtalsvert með tímanum og var kominn niður í 30 milljónir í fyrra.

Núna á miðjumaðurinn aðeins eitt ár eftir af samningi sínum en öll áhugasömu félögin frá því í fyrra hafa ákveðið að snúa sér að öðrum skotmörkum. Aouar ætlar ekki að skrifa undir nýjan samning við Lyon og fer því á frjálsri sölu næsta sumar ef hann verður ekki seldur.

Ekki er greint frá því hversu hátt tilboð barst frá Forest í leikmanninn eða hversu mikið þarf til að festa kaup á honum, en aðrir fjölmiðlar giska á að 15 milljónir evra muni nægja.

Aouar hefur skorað 40 mörk og gefið 35 stoðsendingar í 215 leikjum hjá Lyon. Hann spilar yfirleitt á miðri miðjunni en stundum sem sóknartengiliður eða vinstri kantmaður.

Hann var lykilmaður í U21 landsliði Frakka en hefur aðeins spilað einn leik fyrir A-landsliðið.

Nottingham Forest hefur farið mikinn á leikmannamarkaðinum í sumar og er búið að krækja í meira en tíu nýja leikmenn.

Lyon krækti í Corentin Tolisso á frjálsri sölu frá FC Bayern og mun hann taka stöðu Aouar í byrjunarliðinu. Hinn efnilegi Johann Lepenant er einnig kominn til félagsins ásamt Nicolas Tagliafico og Alexandre Lacazette.


Athugasemdir
banner
banner