Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 13. apríl 2021 16:52
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Andrea Rán hló á fréttamannafundi - „Jafntefli fínt fyrir mig"
Icelandair
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir var fulltrúi leikmanna á fréttamannafundi eftir leik Íslands og Ítalíu í dag. Andrea var í byrjunarliði Íslands í leiknum og lék á miðjunni. Þetta var annar leikurinn gegn Ítalíu því liðin mættust einnig á laugardag og Ítalía vann þann leik 1-0.

Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli og má nálgast textalýsingu frá honum hér. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði mark Íslands undir lok fyrri hálfleiks.

Andrea er leikmaður Le Havre í Frakklandi en hún er þar á láni frá Breiðabliki. Le Havre hefur gengið mjög illa á leiktíðinni, er í botnsæti deildarinnar og einungis unnið einn leik. Andrea var bæði spurð út í leikinn í dag og einnig um Le Havre. Hér má sjá svör Andreu við spurningum fréttamanna.

Fannst þér vera munur á þessum tveimur leikjum?
„Það er erfitt að bera saman, mér fannst við mæta ákveðnar í báða leikina. Það er jákvætt að við gátum fylgt því sem við lögðum upp með.“

Hvaða lærdóm finnst þér hægt að draga af þessum tveimur leikjum?

„Það er nýr þjálfari með nýjar áherslur og það var gott að fá þetta verkefni og mikilvægt. Gott að koma hópnum saman og æfa það sem þurfti að æfa. Við lærðum nýtt kerfi frá nýjum þjálfara.“

Finnst þér við gera vel í að svara þessu áfalli í byrjun leiks?
„Jú, fyrstu tuttugu mínúturnar var smá óöryggi. Við vorum ekki vaknaðar á fyrstu mínútu en þegar við unnum okkur inn í leikinn fannst mér við svara markinu og við gáfum aldrei færi á okkur eftir byrjunina. Jákvætt að við gátum haldið áfram.“

Hver er munurinn á þessu kerfi og því frá síðasta landsliðsþjálfara?
„Við höldum mikið í boltann og viljum vera með boltann. Við erum ekki mikið í því að sparka fram og elta.“

Hvað fannst þér klikka í markinu?
„Ætli það hafi ekki verið blanda af óöryggi og einbeitingarleysi fyrstu mínútuna. Markið kom á fyrstu sekúndunum sem getur gerst í fótbolta en við svöruðum fyrir það og unnum okkur inn í leikinn sem var mjög jákvætt.“

Það hefur lítið gengið með Le Havre, er góð tilbreyting að koma inn í annað umhverfi?
„Já, að sjálfsögðu. Það hefur ekki gengið eins vel og maður vonaðist eftir með Le Havre [frábær áhersla á franskan hreim]. Þannig jafntefli er fínt fyrir mig,“ sagði Andrea, endurtók nafn liðsins og hló.

Ertu að spila svipað hlutverk í dag og þú gerir venjulega með Le Havre?
„Já, ég spila djúp á miðju þar og er mikið að færa boltann frá hægri til vinstri og fram á við. Týpísk sexa, sit á miðjunni og færi boltann.“

Maður gerir ráð fyrir því að botnlið frönsku deildarinnar þurfi að verjast, er það breyting að koma inn í leikstíl landsliðsins?
„Nei, þú myndir halda að við myndum liggja í vörn en við viljum halda í boltann þar líka. Þjálfarinn leggur mikið upp úr því að halda boltanum. Þetta er ekki mikil tilbreyting fyrir mig, ég vil halda í boltann og vera með boltann,“ sagði Andrea.
Athugasemdir
banner
banner