Enski vinstri bakvörðurinn Luke Shaw verður ekki með Manchester United í byrjun tímabilsins vegna meiðsla í kálfa.
Englendingurinn spilaði aðeins fimmtán leiki með United á síðasta tímabili vegna meiðsla.
Hann lék síðast með liðinu í febrúar en Shaw tjáði sig um meiðslin eftir tímabilið og sagði að ábyrgðin væri á honum og læknateyminu, en hann snéri of hratt til baka og meiddist stuttu eftir endurkomu sína í liðið.
Engu að síður var hann valinn í landsliðshóp Englands fyrir Evrópumótið og spilaði þar þrjá leiki.
Shaw meiddist á kálfa á æfingu liðsins á dögunum og er nú ljóst að hann verður frá næstu vikur, en United greinir frá því að hann missi af byrjun tímabilsins.
Það er þó að vonast eftir því að hann verði klár eftir landsleikjaverkefnið í september.
Slæmar fréttir fyrir United sem hefur nú misst þrjá leikmenn í meiðsli fyrir byrjun tímabilsins en franski varnarmaðurinn Leny Yoro verður frá í þrjá mánuði á meðan Rasmus Höjlund verður frá í sex vikur.
Athugasemdir