fös 13. nóvember 2020 13:00
Magnús Már Einarsson
Alfons tekur þátt í ótrúlegu ævintýri - „Hef aldrei upplifað annað eins"
Alfons í leik með U21 landsliði Íslands.
Alfons í leik með U21 landsliði Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfons Samspted, hægri bakvörður U21 landsliðs Íslands, hefur tekið þátt í mögnuðu gengi Bodö/Glimt í Noregi á þessu tímabili. Bodö/Glimt er einungis einu stigi frá því að gulltryggja norska meistaratitilinn þegar sex umferðir eru ennþá eftir.

„Ég hef aldrei upplifað annað eins. Þetta hefur verið draumi líkast," sagði Alfons við Fótbolta.net í dag en Bodö/Glimt er að verða norskur meistari í fyrsta skipti í sögunni.

„Það er skemmtileg stemning í bænum. Það er jákvæðni og allir mjög glaðir hvernig er búið að vera að ganga. Þetta hefur vakið athygli á ótrúlegustu stöðum. New York Times mætti og tók viðtal við hina og þessa í vikunni, þýsk dagblöð hafa fjallað um þetta og það er verið að kíkja á okkur úr öllum heimshornum. Við erum að gera eitthvað rétt."

83 mörk í 24 leikjum
Bodö/Glimt hefur unnið 21 af 24 leikjum sínum og er með 18 stiga forskot á Molde. Liðið hefur spilað stórskemmtilegan fótbolta og skorað 83 mörk á tímabilinu eða 3,7 mörk að meðaltali í leik.

„Við erum með þannig hugarfar að við förum inn í leikinn til að spila skemmtilegan fótbolta og skila eins góðri frammistöðu og hægt er. Hingað til hefur kerfið okkar virkað það vel og við höfum spilað mjög skemmtilegan fótbolta. Hlutirnir eru búnir að falla vel með okkur."

Féll strax vel inn í liðið
Alfons kom til Bodö/Glimt síðastliðinn vetur frá sænska félaginu Norrköping. Alfons hafði farið á lán frá Norrköping undanfarin ár en hann var ekki ofarlega í goggunarröðinni þar.

„Tækifærin voru takmörkuð í Svíþjóð. Ég nýtti tímann til að bæta mig sem leikmaður en maður vill spila leiki á endanum. Það er komið núna og það er mjög gaman," sagði Alfons sem hefur verið fastamaður hjá Bodö/Glimt.

„Ég fann það mjög fljótlega að ég henta vel í þessu kerfi. Strákarnir eru opnir og mjög móttækilegir fyrir manni. Ég kom inn í hópinn og leið mjög fljótlega eins og heima."

Upplifun að spila á San Siro
Bodö/Glimt mætti ítalska stórliðinu AC Milan í 3. umferð Evrópudeildarinnar. Leikurinn fór fram á San Siro á Ítalíu en Bodö/Glimt tapaði naumlega 3-2.

„Stúkurnar voru tómar en þegar maður labbaði inn á völlinn áttaði maður sig á því hvað þetta er ótrúlega stórt. Þetta voru svo háir veggir og stúkurnar voru lengst upp. Þá fór maður að pæla í því hvernig þetta væri ef stúkurnar væru fullar líka. Við fengum ágætis niðurstöðu. Við spiluðum mjög flottan fóbolta og þeir keyptu leikmann (Jens Petter Hauge) frá okkur í kjölfarið. Þeir töluðu um það eftir leik að þeir voru hrifnir af því hvernig við vorum að vinna þetta. Þetta var þvílík upplifun," sagði Alfons að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner