Spænska stórveldið Real Madrid ætlar að kaupa nýjan miðvörð í sumar og eru þrír úrvalsdeildarleikmenn efstir á óskalistanum.
Éder Militao, Raúl Asencio, Antonio Rüdiger, David Alaba og Jesús Vallejo eru miðverðirnir í leikmannahópi Real Madrid sem stendur en samningur Vallejo rennur út í sumar. Þá eiga Rüdiger og Alaba aðeins eitt ár eftir af samningi.
Ljóst er að Madrídingar vilja hafa fimm miðverði í leikmannahópi sínum og því vantar einn nýjan inn í sumar.
Sá sem virðist vera líklegastur til að ganga í raðir félagsins er Dean Huijsen sem hefur verið að gera flotta hluti með Bournemouth þrátt fyrir ungan aldur.
Huijsen er 20 ára spænskur landsliðsmaður sem er með tvöfaldan ríkisborgararétt og spilaði fyrir Holland upp yngri landsliðin. Hann hefur spilað fyrir Juventus og Roma á ferlinum.
Í samningi Huijsen við Bournemouth er innifalið 50 milljón punda söluákvæði og miðvörðurinn er því falur í sumar.
Hinir tveir sem Real hefur áhuga á eru Ibrahima Konaté hjá Liverpool og William Saliba hjá Arsenal. Saliba er talinn vera alltof dýrt skotmark þar sem hann á tvö ár eftir af samningi við Arsenal og er í samningsviðræðum við félagið.
Konaté er hins vegar fáanlegur þar sem hann á aðeins eitt ár eftir hjá Liverpool og virðist vera með alltof háar launakröfur fyrir Englandsmeistarana.
Athugasemdir