
Brenet (ofan á) í baráttunni við Armando Obispo í leik gegn PSV. 'Vonandi heldur hann bara áfram að standa sig'
Alfons Sampsted gekk í kringum áramótin í raðir hollenska félagsins Twente. Hann ræddi við Fótbolta.net í dag og sagði á léttu nótunum að hann hefði ákveðið að horfa á suma leiki hjá Twente á tímabilinu. Hann vísar þar í að hann var ónotaður varamaður í nokkrum leikjum.
Samkeppnin í hægri bakvarðarstöðunni hjá Twente er mikil og kom Alfons ekki við sögu í níu af síðustu tólf leikjum Twente á tímabilinu.
Samkeppnin í hægri bakvarðarstöðunni hjá Twente er mikil og kom Alfons ekki við sögu í níu af síðustu tólf leikjum Twente á tímabilinu.
„Að sjálfsögðu (var ég svekktur að spila ekki alla leki), ég er bara þannig karakter að ég vil vera inn á vellinum allar mínútur."
„En ég er með samkeppnisaðila sem ákvað að skora tíu mörk úr bakverðinum og liðið okkar fer á ágætis sprett í lokin, unnum 10 af síðustu 14 leikjunum okkar og fáum á okkur sjö mörk."
„Það var ágætt jafnvægi á liðinu og ef maður horfir á þetta utan frá þá er kannski ekkert svo skrítið að þjálfarinn hafi ekki verið að breyta liðinu mikið."
„Að sjálfsögðu er maður hungraður í fleiri mínútur," sagði Alfons.
Joshua Brenet er 29 ára Hollendingur sem Alfons var að keppa við um mínútur. Brenet skoraði tíu mörk á tímabilinu og lagði upp fjögur. Twente endaði tímabilið vel og vann umspilið um sæti í forkeppni Sambandsdeildarinnar nú á dögunum.
„Það er frábært, það styttir aðeins sumarfríið mitt en gerir þetta aðeins skemmtilegra. Eftir að hafa spilað í Evrópu með Bodö/Glimt þá veit maður hvað þetta er gaman og hvað þetta gefur okkur og stuðningsmönnum mikið. Ég hlakka til."
Í aðdraganda þess að Alfons gekk í raðir Twente frá Bodö/Glimt var fjallað um það í hollenskum fjölmiðli að líkur væru á því að Brenet, sem á að baki tvo leiki fyrir hollenska landsliðið, myndi fara frá félaginu í sumar. Veit Alfons eitthvað um það?
„Ég veit ekkert konkret með það, veit að það er áhugi á honum, veit að hann hefur staðið sig vel."
„Fyrir sjálfan mig þá væri það flott ef hann fengi skref upp á við og ég myndi þá fylla í skarðið. Vonandi heldur hann bara áfram að standa sig."
Alfons segir að Brenet sé allt öðruvísi leikmaður en hann sjálfur.
„Það sést í leikjum hjá Twente að við erum ólíkar týpur, hann er sóknarsinnaðri og aðeins kærulausari varnarlega séð, en leysir það virkilega vel á sinn hátt. Á meðan er ég aðeins formfastari og strúktúraðri leikmaður."
„Við erum tvær svipaðar tæpur á vissan hátt, en virkilega ólíkar á annan hátt," sagði Alfons.
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að neðan.
Framundan er leikur hjá íslenska landsliðinu gegn Slóvakíu. Sá leikur fer fram á Laugardalsvelli og hefst 18:45.
Athugasemdir