Haaland verður með riftunarákvæði - Real Madrid ætlar að fá Saliba - Antony til Newcastle?
banner
   mið 14. ágúst 2024 20:06
Brynjar Ingi Erluson
Lengjudeildin: Ótrúleg dramatík í Eyjum - Öruggt hjá Grindavík gegn Þór
Lengjudeildin
Vilhelm Þráinn varði vítaspyrnu í uppbótartíma fyrir ÍR
Vilhelm Þráinn varði vítaspyrnu í uppbótartíma fyrir ÍR
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eyjamenn eru á toppnum þrátt fyrir að hafa kastað frá sér sigrinum í kvöld
Eyjamenn eru á toppnum þrátt fyrir að hafa kastað frá sér sigrinum í kvöld
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dagur Ingi Hammer Gunnarsson skoraði í sigri Grindvíkinga
Dagur Ingi Hammer Gunnarsson skoraði í sigri Grindvíkinga
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Afturelding vann á Dalvík
Afturelding vann á Dalvík
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
ÍBV er komið upp í toppsæti Lengjudeildar karla þrátt fyrir að hafa gert dramatískt 2-2 jafntefli við ÍR á Hásteinsvelli í kvöld. Aron Jóhannsson var hetja Aftureldingar í 3-1 sigrinum á Dalvík/Reyni og þá vann Grindavík öruggan 3-0 sigur á Þór.

Eyjamenn tóku forystuna í leiknum á 27. mínútu er hinn 18 ára gamli Viggó Valgeirsson kom boltanum í netið. Hermann Þór Ragnarsson átti skot í stöng og voru ÍR-ingar í brasi með að koma boltanum frá. Tómas Bent Magnússon komst í boltann, kom honum á Viggó sem skoraði.

Hálftíma fyrir leikslok fékk Jordian G S Farahani, leikmaður ÍR, að líta sitt annað gula spjald og var rekinn af velli fyrir að brjóta á Vicente Valor rétt fyrir utan teig.

Eyjamenn bættu við öðru marki sínu fimm mínútum síðar. Hermann með fyrirgjöfina á nær á Tómas Bent sem kom boltanum í markið.

Leikurinn var hins vegar langt í frá búinn. ÍR-ingar gáfust ekki upp, en þegar ellefu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma fengu þeir vítaspyrnu. Henrik Máni B. Hilmarsson ýtti í bakið á Hákoni Degi Matthíassyni og vítaspyrna dæmd.

Óliver Elís Hlynsson skoraði af punktinum. Þetta gaf ÍR-ingum von, sem þeir svo sannarlega nýttu. Átta mínútum eftir markið átti Hákon Dagur flotta fyrirgjöf sem skoppaði inn á teig ÍR-inga og til Marc Macausland sem jafnaði metin.

Seint í uppbótartíma færðist enn meiri dramatík í leikinn. Jón Arnar Barðdal var tekinn niður í teig ÍR-inga og önnur vítaspyrna dæmd.

Sverrir Páll Hjaltested fékk tækifæri til að gerast hetja Eyjamanna, en Vilhelm Þráinn Sigurjónsson, markvörður ÍR, stal því hlutverki og varði spyrnuna.

Frábær lokakafli hjá ÍR-ingum á meðan Eyjamenn köstuðu sigrinum frá sér. Þrátt fyrir þessi úrslit fara Eyjamenn á toppinn, með 32 stig og betri markatölu en Fjölnir, en Fjölnismenn geta endurheimt sætið síðar í kvöld. ÍR er á meðan í 5. sæti með 27 stig.

Grindavík vann Þór

Grindavík hafði betur gegn Þór, 3-0, í Safamýri.

'Heimamenn' voru með góð tök á leiknum í fyrri hálfleiknum og sköpuðu sér góða sénsa. Pressan var þung og skilaði það einu góðu færi er Josip Krznaric fékk boltann og setti hann naumlega yfir markið.

Þórsarar komu sér aðeins betur í leikinn næstu mínútur en fengu síðan óvænt mark í markið er Einar Karl Ingvarsson skoraði úr aukaspyrnu. Boltinn yfir vegginn og í bláhornið.

Snemma í síðari hálfleiknum fengu Þórsarar á sig klaufalegt mark. Nuno Malheiro kom með fyrirgjöfina og virtist Aron Birkir Stefánsson vera með allt í teskeið, en svo var aldeilis ekki. Hann missti boltann og þar voru þeir Adam Árni Róbertsson og Dagur Ingi Hammer Gunnarsson eins og hrægammar mættir í að pota boltanum inn. Dagur var líklega sá sem kom boltanum inn og því skráð á hann í bili.

Grindavík gerði út um leikinn á 85. mínútu. Fyrirgjöfin kom inn í teiginn en Þórsarar hreinsuðu frá, þó ekki lengra en á Josip sem skoraði með hnitmiðuðu skoti.

Góður og þægilegur sigur hjá Grindavík sem er í 8. sæti með 20 stig en Þór í 9. sæti með 18 stig.

Góður útisigur hjá Aftureldingu

Afturelding sótti þrjú góð stig á Dalvík er liðið lagði heimamenn, 3-1, Dalvíkurvelli.

Gestirnir úr Mosfellsbæ fengu draumabyrjun er Hrannar Snær Magnússon skallaði fyrirgjöf frá hægri í netið á 5. mínútu. Franko Lalic var í boltanum en náði ekki að koma í veg fyrir að boltinn færi inn.

Georg Bjarnason átti því næst skot í slá úr þröngu færi en heimamenn fóru aðeins að ógna þegar leið á hálfleikinn. Borja Lopez komst nálægt því að jafna þegar hálftími var liðinn.

Fyrirgjöfin kom inn á Borja sem mætti á ferðinni inn í teig, en tilraun hans fór af varnarmanni og í stöngina. Borja kom sér í annað gott færi undir lok hálfleiksins en Jökull Andrésson sá við honum í markinu.

Liðin skiptust á færum í byrjun síðari hálfleiks. Borja hélt áfram að skapa sér en heppnin ekki alveg með honum í dag. Heimamönnum tókst á endanum að koma boltanum í markið.

Áki Sölvason kom með hornspyrnu sem Jökull blakaði aftur fyrir sig og á Breka Hólm Baldursson. Hann kom með fastan fyrir markið og á Amin Toiki sem jafnaði metin.

Afturelding svaraði þessu frábærlega. Liðið skoraði tvö mörk á fjórum mínútum og var það Aron Jóhannsson sem gerði bæði mörkin.

Á 66. mínútu keyrðu gestirnir hratt upp vinstra megin. Aron fékk boltann rétt fyrir utan teig, tók góða hreyfingu til vinstri áður en hann klíndi boltanum út við stöng. Fjórum mínútum síðar gerði hann annað mark sitt og þriðja mark Aftureldingar. Hann fékk sendingu inn í teiginn og kláraði listavel.

Afturelding sigldi þessum sigri örugglega heim. Liðið er í 6. sæti með 24 stig en Dalvík/Reynir áfram á botninum með 13 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Dalvík/Reynir 1 - 3 Afturelding
0-1 Hrannar Snær Magnússon ('5 )
1-1 Amin Guerrero Touiki ('60 )
1-2 Aron Jóhannsson ('66 )
1-3 Aron Jóhannsson ('70 )
Lestu um leikinn

ÍBV 2 - 2 ÍR
1-0 Viggó Valgeirsson ('27 )
2-0 Tómas Bent Magnússon ('65 )
2-1 Óliver Elís Hlynsson ('80 )
2-2 Marc Mcausland ('88 )
2-2 Sverrir Páll Hjaltested ('94 , misnotað víti)
Rautt spjald: Jordian G S Farahani, ÍR ('60) Lestu um leikinn

Grindavík 3 - 0 Þór
1-0 Einar Karl Ingvarsson ('19 )
2-0 Dagur Ingi Hammer Gunnarsson ('56 )
3-0 Josip Krznaric ('85 )
Lestu um leikinn
Lengjudeild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    ÍBV 21 11 5 5 49 - 26 +23 38
2.    Fjölnir 21 10 7 4 34 - 24 +10 37
3.    Keflavík 21 9 8 4 33 - 24 +9 35
4.    ÍR 21 9 8 4 30 - 25 +5 35
5.    Afturelding 21 10 3 8 36 - 36 0 33
6.    Njarðvík 21 8 8 5 32 - 27 +5 32
7.    Þróttur R. 21 7 6 8 32 - 29 +3 27
8.    Leiknir R. 21 8 3 10 32 - 33 -1 27
9.    Grindavík 21 6 7 8 38 - 44 -6 25
10.    Þór 21 5 8 8 30 - 37 -7 23
11.    Grótta 21 4 4 13 30 - 48 -18 16
12.    Dalvík/Reynir 21 2 7 12 21 - 44 -23 13
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner