Brasilíski sóknarmaðurinn Vitor Roque er frjálst að yfirgefa Barcelona í sumarglugganum en þetta segir ítalski blaðamaðurinn Matteo Moretto.
Roque hefur aðeins eytt hálfu ári hjá Börsungum en hann kom til félagsins frá Athletico Paranaense.
Framherjinn fékk fá tækifæri undir stjórn Xavi og er þá ekki í plönum Hansi Flick.
Roque hefur reynt að hafa áhrif á liðsvali þjálfarans á æfingum til þess að brjóta sér leið inn í liðið, en Deco, yfirmaður fótboltamála hjá Barcelona, mætti á æfingasvæðið og bannaði honum að ræða við Flick um þessi mál.
Var honum einnig tjáð að hinn ungi og efnilegi Pau Victor væri á undan honum í goggunarröðinni og því mætti hann leita að sér að nýju félagi.
Portúgalska félagið Sporting Lisbon hefur mikinn áhuga á Roque og eru viðræður hafnar á milli Barcelona og portúgalska félagsins.
Barcelona hefur greinilega ekki fyrirgefið honum og umboðsmanni hans fyrir hegðun þeirra eftir tímabilið, en þeir létu gamminn geisa í viðtölum við spænsku pressuna. Þar gagnrýndu þeir Xavi og stjórnarmenn félagsins við að standa ekki við gefin loforð.
Roque, sem er 19 ára, vildi ólmur sanna sig hjá Barcelona í sumar, en sá möguleiki er ekki lengur í myndinni.
Athugasemdir