Ísland spilaði núna tvo leiki í október og þó frammistaðan hafi að mörgu leyti verið góð, þá náðist aðeins eitt stig úr þessum tveimur leikjum.
Það var farið yfir leikina í Innkastinu í gær og þar var talað um að Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, væri farinn að finna sitt lið eða einhverja teikningu af því, en í þættinum var einnig komið inn á að það vantaði mikilvæga pósta í liðið, og þá sérstaklega í gær.
En hvernig er okkar sterkasta lið þegar allir eru klárir og með í verkefninu? Skoðum það aðeins.
Það var farið yfir leikina í Innkastinu í gær og þar var talað um að Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, væri farinn að finna sitt lið eða einhverja teikningu af því, en í þættinum var einnig komið inn á að það vantaði mikilvæga pósta í liðið, og þá sérstaklega í gær.
En hvernig er okkar sterkasta lið þegar allir eru klárir og með í verkefninu? Skoðum það aðeins.
Baráttan um markvarðarstöðuna er mjög áhugaverð. Hákon Rafn Valdimarsson hefur átt hana í síðustu gluggum og staðið sig afar vel, en hann gerði stór mistök í gær. Og með Elías Rafn Ólafsson andandi ofan í hálsmálið á sér, þá er kannski ekki ólíklegt að það verði breyting á markvarðastöðunni í næsta verkefni í nóvember. Það er afar hörð samkeppni um þessa stöðu.
Logi Tómasson og Valgeir Lunddal stóðu sig vel í nýliðnu verkefni og eru líklega okkar bestu kostir í bakvarðastöðurnar á þessum tímapunkti en ef allir eru heilir þá kemur Hörður Björgvin Magnússon líklega inn í hjarta varnarinnar. Hann er að stíga upp úr erfiðum meiðslum og vonandi byrjar hann að spila aftur á fullu með landsliðinu á næsta ári.
Jóhann Berg Guðmundsson er hjartað í liðinu og það hefur reynst vel að hafa annað hvort Arnór Ingva Traustason eða Stefán Teit Þórðarson inn á miðsvæðinu með honum. Stefán Teitur er spennandi kostur í þessa stöðu og Ísak Bergmann Jóhannesson er líka farinn að banka á dyrnar. Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson geta þá líka verið hluti af hópnum en eru líklega ekki byrjunarliðsmenn í dag.
Jón Dagur Þorsteinsson hefur líklega aldrei átt slakan landsleik og er besti kosturinn á vinstri kantinn. Hann er með gríðarlegan karakter og er óhræddur við að láta menn heyra það. Svo eigum við einn Hákon Arnar Haraldsson inni sem kemur væntanlega á hægri kantinn þegar hann er búinn í meiðslum. Hákon er stórkostlegur leikmaður. Arnór Sigurðsson var þá ekki heldur með í verkefninu sem er að klárast og er einnig mjög flottur kostur á kantinn.
Fremstir á vellinum í sterkasta liðinu eru þá Orri Steinn Óskarsson og Albert Guðmundsson. Það er súperstjarna að fæðast í Orra og við sáum það hvað best gegn Wales og Tyrklandi. Þvílík gæði. Albert hefur ekki mátt spila með landsliðinu frá því í mars en hann hefur verið einn besti leikmaðurinn á Ítalíu núna í langan tíma. Það eru rosaleg fótboltaleg gæði í þeim báðum og áhugaverð tilhugsun hvað þeir geta gert saman. Andri Lucas Guðjohnsen er þá líka ótrúlega góður kostur í fremstu víglínu og gaman að sjá hvað hann og Orri geta spilað vel saman.
Athugasemdir