
Reynsluboltinn Fanndís Friðriksdóttir var að sjálfsögðu í sigurvímu að loknum 2-1 sigri Vals á Breiðablik í úrslitaleik Mjólkurbikarsins sem fram fór á Laugardalsvelli í kvöld. Hún var til viðtals við Fótbolta.net á grasinu á Laugardalsvelli að leik loknum og sagði um leikinn og tilfinninguna.
Lestu um leikinn: Valur 2 - 1 Breiðablik
„Já bara geggjuð. Þetta var frábær leikur af okkar hálfu og var bara skemmtilegt.“
Leikurinn sem slíkur var jafn og spennandi og bæði lið fengu sína sóknarsénsa. Litlu atriðin sem oft ráða miklu réðu eflaust úrslitum.
„Þessir leikir á milli þessara liða undanfarin ár hafa verið mjög jafnir og unnist á einu marki þannig að þetta var frábær sigur. Mér fannst við samt heilt yfir betri og leikurinn ekki í hættu, Við vorum komnar í 2-0 og svo skora þær þetta mark sem var bara skemmtilegt fyrir leikinn.“
Hvað var það sem lið Vals var að gera vel til þess að stýra leiknum?
„Mér fannst við halda vel í boltann. Við sköpuðum ekkert brjálað mikið af dauðafærum en við héldum þeim frá markinu okkar að mestu leyti og héldum vel í boltann.“
Hvernig á að fagna í kvöld?
„Ég veit það ekki alveg, það er ekkert búið að ákveða það.“
Sagði skælbrosandi Fanndís en allt viðtalið má sjá hér að ofan.
Athugasemdir