
„Mér líður frábærlega. Þetta gæti ekki verið mikið betra. Dolla í hús og ártal á vegginn.“ sagði Fanney Inga Birkisdóttir, markmaður Vals, eftir 2-1 sigur á Breiðablik í úrslitaleik Mjólkurbikarsins.
Lestu um leikinn: Valur 2 - 1 Breiðablik
Fanney fannst Valur vera með yfirburði á vellinum í dag og áttu sigurinn skilið.
„Mér fannst við alltaf vera í alltaf frekar mikilli stjórn og ég treysti liðinu fyrir framan mig algjörlega. Það var smá svekkjandi að fá mark á sig í lokin en það er ekki spurt að því núna.“
Í dag mættust bestu lið landsins en var eitthvað sætara að vinna Breiðablik í þessum leik en að vinna eitthvað annað lið?
„Það er alltaf sætara að vinna Breiðablik. Sérstaklega því maður var alltaf að keppa á móti þeim upp yngri flokkanna. Svo í meistaraflokki núna. Það gleður hjartað mjög mikil.“
Var Fanney eitthvað stressuð þegar Breiðablik minnkuðu muninn alveg í restina?
„Nei. Það var svo lítið eftir og mér fannst við alveg vera með þær. Ég hafði engar áhyggjur að við myndum ekki sigla þessu heim.“
Eftir vonbrigði í bikarnum í fyrra var þá alltaf markmiðið að vinna bikarmeistaratitilinn í ár?
„Það er alltaf markmiðið á Hlíðarenda að taka eins marga titla og hægt er. Það voru ákveðin vonbrigði að detta svona snemma út í fyrra. Það er klárlega sætt að hafa komist alla leið í ár.“
Nánar er rætt við Fanney í spilaranum hér að ofan.