
„Þetta er bara geggjað. Það er geggjað að hafa klárað þetta og þetta er bara geggjaður dagur.“ sagði Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir, leikmaður Vals, eftir 2-1 sigur í úrslitaleik Mjólkurbikarsins gegn Breiðablik í kvöld.
Lestu um leikinn: Valur 2 - 1 Breiðablik
Guðrún fannst Valur vera með yfirburði á vellinum í dag og eiga sigurinn skilið.
„Mér fannst við með þetta í byrjun seinni hálfleiks og í fyrri. Leikurinn var aldrei í hættu en við stýrðum honum í byrjun seinni hálfleiks.“
Hvað var það sem skilaði þessu í dag og afhverju var Valur mikið betri í seinni hálfleiknum?
„Við ætluðum allar að vinna þennan titil. Við tókum ræðuna inni í klefa að við værum að fara að skilja allt eftir á vellinum og við gerðum það. Það skilaði okkur titlinum.“
Guðrún braut ísinn í dag og kom Valskonum yfir í seinni hálfleiknum.
„Ég sá bara boltann og potaði honum inn. Síðan var ég ekkert eðlilega rugluð og hljóp bara og fagnaði. Ég var smá lengi að fatta að ég hafi skorað en svo fattaði ég það.“
Var sigurinn ennþá sætari þar sem þær unnu Breiðablik en ekki bara eitthvað lið?
„Það er alltaf geggjað að vinna titil. Þetta eru bara tvö lið sem eiga skilið að vera í úrslitum og bara geggjaður slagur.“
Nánar er rætt við Guðrúnu í spilaranum hér að ofan.