Fjórum leikjum var að ljúka á sama tíma í ensku úrvalsdeildinni þar sem stórlið Arsenal lagði Wolves að velli á Emirates leikvanginum.
Bukayo Saka var atkvæðamestur þar með mark og stoðsendingu, en Arsenal spilaði vel yfir heildina þrátt fyrir að hafa verið ósannfærandi á köflum.
Úlfarnir sýndu hetjulega baráttu og komust nálægt því að skora í leiknum en tókst ekki að setja boltann framhjá David Raya sem átti flottan leik.
Newcastle United lagði þá nýliða Southampton að velli þrátt fyrir að hafa spilað leikmanni færri stærsta hluta leiksins, eftir að Fabian Schär fékk beint rautt spjald fyrir að fara með ennið sitt í enni á andstæðingi sem lét sig falla til jarðar.
Það ríkti jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik en heimamenn tóku forystuna undir lok fyrri hálfleiks, þegar Joelinton skoraði eftir undirbúning frá Alexander Isak.
Nýliðarnir í liði Southampton reyndu að sækja eins og þeir gátu í síðari hálfleik en tókst ekki að opna vörn Newcastle nægilega vel til að skora mark. Tíu leikmenn Newcastle gerðu vel að halda út og tryggja sér þrjú stig á heimavelli.
Brighton heimsótti Everton og vann flottan sigur. Lærlingar Fabian Hürzeler leiddu í leikhlé eftir mark frá Kaoru Mitoma og tvöfaldaði Danny Welbeck forystuna í upphafi síðari hálfleiks. Yankuba Minteh og Mats Wieffer áttu stoðsendingarnar.
Skömmu eftir mark Welbeck fékk reynsluboltinn Ashley Young beint rautt spjald fyrir að brjóta af sér sem aftasti varnarmaður. Brighton tókst ekki að skora úr aukaspyrnunni sem hlaust en nýtti sér liðsmuninn og skoraði eitt mark í viðbót til að tryggja 0-3 sigur.
Simon Adingra skoraði síðasta markið eftir undirbúning frá Welbeck og frábær byrjun Hürzeler í úrvalsdeildinni staðfest.
Að lokum gerði Nottingham Forest jafntefli gegn Bournemouth þar sem Chris Wood skoraði eina mark heimamanna í fyrri hálfleik.
Heimamenn í Forest voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og gerðu vel að drepa leikinn niður eftir leikhlé en þeim tókst þó ekki að halda út til leiksloka.
Bournemouth sótti stíft á lokamínútunum og skoraði Antoine Semenyo jöfnunarmark á 87. mínútu til að bjarga stigi fyrir gestina.
Arsenal 2 - 0 Wolves
1-0 Kai Havertz ('25 )
2-0 Bukayo Saka ('74 )
Everton 0 - 3 Brighton
0-1 Kaoru Mitoma ('26 )
0-2 Danny Welbeck ('56 )
0-3 Simon Adingra ('87 )
Rautt spjald: Ashley Young, Everton ('66)
Newcastle 1 - 0 Southampton
1-0 Joelinton ('45 )
Rautt spjald: Fabian Schar, Newcastle ('28)
Nott. Forest 1 - 1 Bournemouth
1-0 Chris Wood ('23 )
1-1 Antoine Semenyo ('87 )
Athugasemdir