Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 17. september 2019 13:30
Magnús Már Einarsson
Össur skíthræddur um að Pukki verði keyptur af stórliðunum
Magnaður.
Magnaður.
Mynd: Getty Images
Teemu Pukki, framherji Norwich, var valinn leikmaður ágúst mánaðar í ensku úrvalsdeildinni. Pukki sló ekki slöku við um helgina og var enn á ný á skotskónum í 3-2 sigri Norwich á ensku meisturunum í Manchester City.

Pukki hefur nú skorað sex mörk í fyrstu fimm leikjum tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni. Össur Skarphéðinsson, fyrrum alþingismaður og ráðherra, er dyggasti stuðningsmaður Norwich á Íslandi og hann er farinn að óttast að stærri félög muni kaupa Pukki af Norwich.

„Já, vitaskuld er maður skíthræddur um að Pukki verði keyptur af stórliðunum. Annað hvort væri nú. Hann er klínískari en andskotinn, hefur gríðarlegt auga fyrir staðsetningum, og ískaldar taugar," sagði Össur við Fótbolta.net.

„Minnir svolítið á Vardy og Kane sem komu einhvers staðar utan úr buskanum og enginn hélt að myndu halda áfram að brillera."

Pukki var markahæstur í Championship deildinni með Norwich á síðasta tímabili og Össur hafði á tilfinningunni að hann gæti fylgt þeim árangri eftir í úrvalsdeildinni.

„Ég sagði við vini mína, sem flestir eru gaddfreðnir Púlarar, að það væri stórsigur ef Kanarífuglarnir héldu sér uppi, og ef Pukki myndi skora í fyrsta leik – sem var á móti Liverpool – þá yrði hann í slagnum um markakóng Úrvalsdeildarinnar. Síðan hefur hann skorað og skorað – og haldi það ævintýri áfram má ganga að því sem vísu að stórliðin þyrpist að honum. Þá getur orðið erfitt að halda í hann."

„Ég á von á að vinir mínir í Austur-Anglíu hafi það í bænum sínum kvölds og morgna. En eftir að hafa lagt Golíat verða Kanarífuglarnir dýrvitlausir og vonandi náum við að halda galdramanninum Pukki amk eina leiktíð í viðbót,"
sagði Össur.

Sjá einnig:
Össur Skarphéðins: Dásamlegt að sjá Norwich leika sér að meisturunum
Athugasemdir
banner
banner