Brasilíski miðjumaðurinn Danilo verður frá keppni næstu mánuðina eftir að hafa ökklabrotnað í 1-1 jafntefli Nottingham Forest gegn Bournemouth í gær.
Nuno Espírito Santo, þjálfari Forest, staðfesti fregnirnar eftir lokaflautið.
„Þetta var hrikaleg stund fyrir alla á vellinum, hann er ökklabrotinn. Þetta eru mjög alvarleg meiðsli og við munum sakna hans sárlega bæði í byrjunarliðinu og í búningsklefanum. Þetta er ótrúlega glaðvær strákur, hann er alltaf brosandi og ber augljóslega mikla gleði í hjartanu," sagði Nuno.
„Það elska hann allir hérna hjá félaginu. Hann er kominn heim eftir að hafa verið á spítala og við munum fara betur yfir skaðann með myndatökum á morgun.
„Svona atvik geta verið erfið fyrir leikmenn að vinna úr en strákarnir brugðust vel við og spiluðu leikinn af krafti.
„Þetta var góður og erfiður leikur þar sem bæði lið fengu góð færi. Við erum vonsviknir með að hafa fengið jöfnunarmark á okkur undir lokin."
Danilo er 23 ára gamall og vann sér inn sæti í byrjunarliði Forest á síðustu leiktíð.
Athugasemdir