Enska félagið Chelsea mun selja eða lána nokkra leikmenn frá félaginu áður en glugginn lokar en þetta sagði Enzo Maresca, stjóri félagsins, eftir 2-0 tapið gegn Manchester City í dag.
Eigendur Chelsea hafa haldið áfram að spreða í sumar en hópurinn samanstendur nú af 30 leikmönnum.
Félagið hefur fengið sjö nýja leikmenn inn í hópinn og er hann orðinn allt of stór. Raheem Sterling var einn af þeim leikmönnum sem komust ekki í leikmannahópinn fyrir leikinn gegn Manchester City.
Hann lýsti yfir óánægju sinni með stöðuna og er stærð hópsins nú orðin að stóru vandamáli sem þarf að leysa sem fyrst.
Maresca var spurður út í leikmannamálin eftir leikinn í dag og meðal annars hvort hann væri til í að halda Sterling, en hann viðurkenndi þá að einhverjir gætu þurft að fara.
„Ég vil hafa alla 30 leikmennina í hópnum en það er ekki pláss fyrir alla og því verða einhverjir að fara,“ sagði Maresca við Nazaar Kinsella í dag.
Margir leikmenn eru í viðræðum við önnur félög. Conor Gallagher er að bíða eftir græna ljósinu frá Atlético Madríd og þá hefur Romelu Lukaku verið orðaður við Napoli. Ben Chilwell og Trevoh Chalobah mega fara, en það munu eflaust fleiri skipta um félag áður en glugginn lokar.
Miðjumaðurinn Carney Chukwuemeka fer líklega á lán hjá öðru félagi í efstu deild, svona miðað við ummælin sem Maresca lét falla í dag.
„Carney er ótrúlega góður leikmaður, en hefur verið óheppinn með meiðsli. Ég tel mikilvægt að hann spili 30-35 leiki í röð, en ég er ekki viss um að það verði hér hjá okkur,“ sagði Maresca.
Athugasemdir