
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir var hetjan hjá Nordsjælland er liðið heimsótti HB Köge í 2. umferð danska deildartímabilsins.
Heimakonur í Köge tóku forystuna í fyrri hálfleik en misstu svo leikmann af velli skömmu fyrir leikhlé.
Þær voru þá tíu eftir og tókst þeim ekki að stöðva Emilíu sem skoraði tvennu til að snúa stöðunni við og tryggja sigur fyrir Nordsjælland, sem er með sex stig eftir tvo fyrstu leikina.
Emilía er aðeins 19 ára gömul en hún á tvo A-landsleiki að baki fyrir Ísland.
Í efstu deild sænska boltans var Bryndís Arna Níelsdóttir í byrjunarliði Växjö og lagði hún upp eina mark leiksins í Íslendingaslag gegn Norrköping.
Bryndís var eini Íslendingurinn sem byrjaði leikinn en Þórdís Elva Ágústsdóttir kom inn á 70. mínútu í liði heimakvenna í Växjö, áður en Sigdís Eva Bárðardóttir fékk að spreyta sig í liði gestanna. Sigdís fékk að spila síðustu mínútur leiksins en tókst ekki að koma í veg fyrir 1-0 tap.
Þrjú stig skilja Vaxjö og Norrköping að í sænsku deildinni, þar sem bæði lið sigla lygnan sjó um miðja deild.
Að lokum voru Hlín Eiríksdóttir og Katla María Tryggvadóttir í byrjunarliði Kristianstad sem gerði markalaust jafntefli við Vittsjö.
Guðný Árnadóttir kom einnig inn af bekknum á 64. mínútu í Íslendingaliði Kristianstad sem er í fjórða sæti deildarinnar, níu stigum frá Evrópusæti.
Kristianstad er með 27 stig eftir 15 umferðir en hefur verið að ganga illa undanfarnar vikur.
HB Köge 1 - 2 Nordsjælland
1-0 E. Byrnak ('34, sjálfsmark)
1-1 Emilía Kiær Ásgeirsdóttir ('59)
1-2 Emilía Kiær Ásgeirsdóttir ('66)
Rautt spjald: R. Winther ('44)
Vaxjo 1 - 0 Norrkoping
Kristianstad 0 - 0 Vittsjo
Athugasemdir