Chelsea opnar viðræður við Milan - Saliba í samningaviðræðum - Bellingham til Dortmund?
   sun 18. ágúst 2024 15:08
Ívan Guðjón Baldursson
England: Brentford hafði betur gegn Crystal Palace
Mynd: EPA
Brentford 2 - 1 Crystal Palace
1-0 Bryan Mbeumo ('29)
1-1 Ethan Pinnock ('57, sjálfsmark)
2-1 Yoane Wissa ('76)

Brentford og Crystal Palace áttust við í fyrri leik dagsins á ofursunnudegi í ensku úrvalsdeildinni.

Leikurinn var skemmtilegur og nokkuð jafn þar sem liðin skiptust á að eiga góða kafla. Eberechi Eze var á sínum stað í byrjunarliði Palace og var líflegur í leiknum. Hann kom boltanum í netið í fyrri hálfleik með stórbrotinni aukaspyrnu, en ekki dæmt mark vegna sóknarbrots. Dómurinn er afar umdeildur þar sem margir telja að Samuel Barrott dómari hafi flautað alltof snemma.

Brentford svaraði þessu með að taka forystuna. Bryan Mbeumo gerði það með marki á 29. mínútu og héldu heimamenn forystunni í tæpan hálftíma, þar til Ethan Pinnock jafnaði leikinn með að setja boltann í eigið net af stuttu færi.

Bæði lið fengu góð færi til að skora þar sem Palace kom boltanum í netið en ekki dæmt mark vegna rangstöðu.

Það voru þó heimamenn sem áttu síðasta orðið í dag, þegar Yoane Wissa gerði sigurmarkið á 76. mínútu.

Palace tókst ekki að jafna þrátt fyrir góða tilraun frá Jordan Ayew undir lokin og urðu lokatölur 2-1 fyrir Brentford. Flott byrjun á tímabilinu hjá Thomas Frank og lærlingum hans þrátt fyrir að Ivan Toney hafi ekki verið með í leikmannahópinum.

Hákon Rafn Valdimarsson sat á varamannabekk Brentford í dag.
Athugasemdir