Chelsea opnar viðræður við Milan - Saliba í samningaviðræðum - Bellingham til Dortmund?
   sun 18. ágúst 2024 16:03
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Dýrmæt stig fyrir Keflavík - Jafnt í Breiðholti
Mögnuð endurkoma hjá Grindavík
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þremur fyrstu leikjum dagsins er lokið í Lengjudeild karla, þar sem Keflavík vann góðan sigur á heimavelli gegn Dalvík/Reyni til að brúa bilið á milli sín og toppliða deildarinnar.

Lestu um leikinn: Keflavík 3 -  1 Dalvík/Reynir

Keflavík vann 3-1 á heimavelli og er með 31 stig eftir 18 umferðir, aðeins tveimur stigum eftir toppliði Fjölnis sem á leik til góða.

Leikurinn fór fjörlega af stað en róaðist svo umtalsvert niður áður en heimamenn tóku forystuna með marki eftir hornspyrnu. Það var mikill atgangur í vítateig Dalvíkinga og erfitt að sjá hver skoraði, en markið skráist á Mihael Mladen sem fagnaði vel og innilega.

Gestirnir frá Dalvík jöfnuðu metin í upphafi síðari hálfleiks þegar Amin Touiki var einn og óvaldaður innan vítateigs og skallaði boltann í netið eftir góða fyrirgjöf frá hægri kanti.

Keflvíkingar skoruðu næsta mark og aftur var Mihael á ferðinni en í þetta sinn skoraði hann auðvelt mark af stuttu færi eftir frábæra stoðsendingu frá Ara Steini Guðmundssyni.

Tíu mínútum síðar kom Kári Sigfússon inn af bekknum og skoraði svo með sinni fyrstu snertingu, eftir góðan undirbúning frá Ara Steini.

Dalvík átti engin svör og komust heimamenn nálægt því að skora fjórða markið en tókst ekki. Lokatölur 3-1 og situr Dalvík eftir í fallsæti, með 13 stig eftir 18 umferðir.

Keflavík 3 - 1 Dalvík/Reynir
1-0 Mihael Mladen ('33)
1-1 Amin Guerrero Touiki ('48)
2-1 Mihael Mladen ('61)
3-1 Kári Sigfússon ('71)

Í Breiðholti var stórleikur á dagskrá þar sem ÍR tók á móti Njarðvík í toppbaráttunni.

Lestu um leikinn: ÍR 1 - 1 Njarðvík

Staðan var markalaus eftir fjörugan fyrri hálfleik þar sem bæði lið fengu góð færi til að skora en boltinn rataði ekki í netið.

Í síðari hálfleik var það Oumar Diouck sem tók forystuna fyrir gestina úr Njarðvík, eftir fyrirgjöf frá Kenneth Hogg.

ÍR-ingar áttu skot í stöng skömmu síðar og róaðist leikurinn aðeins niður áður en heimamönnum tókst að jafna eftir hornspyrnu á 80. mínútu. Boltinn barst til Marc McAusland eftir mikinn atgang í vítateignum og potaði Skotinn honum yfir marklínuna til að jafna.

Hvorugu liði tókst að bæta marki við leikinn á lokakaflanum og niðurstaðan nokkuð sanngjarnt jafntefli í Breiðholti. Liðin eru jöfn á stigum í fjórða sæti Lengjudeildarinnar, með 28 stig eftir 18 umferðir.

ÍR 1 - 1 Njarðvík
0-1 Oumar Diouck ('59)
1-1 Marc McAusland ('80)

Að lokum áttust Grindavík og Leiknir R. við í gríðarlega skemmtilegri viðureign sem lauk með sex marka jafntefli eftir dramatíska endurkomu Grindvíkinga.

Lestu um leikinn: Grindavík 3 - 3 Leiknir R.

Leiknismenn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og tóku verðskuldaða forystu þegar Róbert Hauksson skoraði með laglegu skoti utan vítateigs, skömmu eftir að hafa hæft stöngina úr svipuðu skotfæri.

Breiðhyltingar voru áfram sterkari aðilinn og tvöfölduðu forystuna í upphafi síðari hálfleiks þar sem Omar Sowe átti stóran þátt í markinu, en það voru í raun Grindvíkingar sem sáu um að skora það sjálfir. Misheppnuð hreinsun úr vörn Grindavíkur fór af Sindra Björnssyni og í netið.

Grindvíkingar voru heppnir að minnka muninn á 60. mínútu eftir slæm mistök hjá Viktori Frey Sigurðssyni markverði Leiknis sem gerði Ion Perelló kleift að skora. Viktor Freyr bætti þó upp fyrir mistökin skömmu síðan þegar hann átti ólíklega stoðsendingu á Omar Sowe sem slapp í gegn og skoraði eftir langan bolta upp völlinn.

Leiknismenn virtust vera að sigla sigrinum þægilega í höfn þar sem Grindavík átti í miklum vandræðum með að skapa sér færi á lokamínútunum, en tókst þó að eiga dramatíska endurkomu.

Dagur Ingi Hammer Gunnarsson skallaði fyrst hornspyrnu í netið á 89. mínútu áður en Daniel Arnaud Ndi jafnaði metin í uppbótartíma eftir frábæran undirbúning frá Christiani Bjarma

Lokatölur urðu því 3-3 eftir ótrúlega endurkomum, en Leiknismenn geta verið svekktir eftir að hafa verið með stjórn á þessum leik í næstum því 90 mínútur.

Leiknir er fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið eftir þetta jafntefli. Grindavík siglir lygnan sjó með 21 stig, þremur stigum meira en Leiknir.

Grindavík 3 - 3 Leiknir R.
0-1 Róbert Hauksson ('36)
0-2 Sindri Björnsson ('50)
1-2 Ion Perelló ('60)
1-3 Omar Sowe ('62)
2-3 Dagur Ingi Hammer Gunnarsson ('89)
3-3 Daniel Arnaud Ndi ('93)
Athugasemdir
banner
banner