Carlo Ancelotti þjálfari Real Madrid segir félagið vera að skoða leiðir til að gefa leikmönnum sínum einstaklingsfrí á miðju tímabili til að berjast gegn griðarlega miklu leikjaálagi.
Real Madrid á gríðarlega mikið af leikjum framundan á tímabilinu eftir að hafa unnið Meistaradeildina enn eina ferðina á síðustu leiktíð.
„Leikmenn þurfa hvíld, þeir þurfa á frítíma að halda, og við erum að skoða leiðir til að gefa þeim það. Við erum að íhuga að hleypa leikmönnum í einstaklingsfrí á miðju tímabili," sagði Ancelotti í gær, en Real Madrid mætir til leiks í fyrstu umferð nýs deildartímabils á útivelli gegn Mallorca í kvöld.
„Við erum að skoða að gefa leikmönnum vikufrí til að geta varið smá tíma með fjölskyldunum sínum. Við munum gefa landsliðsmönnum forgang því þeir spila ótrúlega mikið af leikjum á hverju tímabili. Þeir þurfa að ferðast öll landsleikjahlé til að spila fyrir þjóð sína og missa af mikilvægum fjölskyldu- og hvíldartíma fyrir vikið.
„Við erum að skipuleggja þetta í nánu samstarfi með læknateyminu."
Leikmannahópur Real Madrid spilaði gríðarlega mikið magn leikja á síðustu leiktíð er lærisveinar Ancelotti unnu einnig spænsku deildina auk Meistaradeildarinnar.
Leikmenn liðsins fóru svo flestir að keppa á Evrópumótinu í Þýskalandi eða Copa América í Bandaríkjunum í sumarfríinu og fengu ekki mikla hvíld áður en þeir mættu til æfinga á undirbúningstímabilinu.
Real mun spila fleiri leiki á þessu tímabili heldur en því síðasta vegna breytinga á Meistaradeild Evrópu og HM félagsliða. Það hefur verið bætt mikið af leikjum við þar.
„Eins og staðan er í dag þá vitum við ekki einu sinni dagsetningar á þessum alþjóðlegu mótum. Við erum að berjast um sjö titla en við vitum ekki einu sinni hvenær hluti af leikjunum munu fara fram.
„Það er ýmislegt sem við þurfum að skipuleggja fram í tímann vegna þess að tímabilið 2025-26 gæti byrjað fyrr en áætlað er útaf HM 2026."
Athugasemdir