Thomas Frank, danskur þjálfari enska úrvalsdeildarfélagsins Brentford, er að missa vonina um að geta haldið framherjanum Ivan Toney hjá félaginu.
Það er mikill áhugi á Toney en ekkert félag var reiðubúið til að borga fullt verð fyrir hann í sumar verandi með aðeins eitt ár eftir af samningi hjá Brentford.
Sádi-arabíska félagið Al-Ahli virðist þó vera reiðubúið til að festa kaup á Toney og er í viðræðum við Brentford þessa dagana. Af þeirri ástæðu var Toney ekki í leikmannahópi Brentford sem vann 2-1 gegn Crystal Palace í opnunarleik nýs úrvalsdeildartímabils á Englandi.
„Ivan (Toney) er frábær leikmaður og mjög mikilvægur fyrir okkur en ég veit að Wissa og Mbeumo eru líka mjög góðir leikmenn og þeir fylltu vel í skarðið í dag," sagði Frank eftir sigurinn.
„Ég myndi vilja að félagsskiptaglugginn væri búinn að loka fyrir fyrsta deildarleik tímabilsins. Ég veit ekki hvenær framtíðin hjá Ivan mun skýrast, það lítur út fyrir að gerast á næstu dögum en það er aldrei að vita hvað gerist. Ég vona það besta."
Athugasemdir