Staðan er 1-0 í hálfleik í viðureign Brentford og Crystal Palace í fyrstu umferð enska úrvalsdeildartímabilsins. Þar tók Bryan Mbeumo forystuna fyrir Brentford skömmu eftir að draumamark Eberechi Eze, stjörnuleikmanns Crystal Palace, fékk ekki að standa.
Eze tók aukaspyrnu úti á hægri kanti en liðsfélagi hans Will Hughes gerðist brotlegur innan vítateigs á sama tíma.
Samuel Barrott dómari sá brotið hjá Hughes og var fljótur að dæma aukaspyrnu, en skotið frá Eze var þá farið af stað en boltinn var ekki kominn í netið þegar Barrott flautaði.
Skotið endaði á að fara í stöngina og inn, enda kom þessi skottilraun öllum að óvörum, leikmönnum og áhorfendum jafnt sem dómaranum sjálfum.
Atvikið var skoðað aftur í VAR-herberginu en dómarateymið þar gat ekki skorist inn í vegna þess að boltinn var enn í leik þegar Barrott flautaði.
VAR hefði mögulega getað dæmt mark ef boltinn hefði verið kominn í netið áður en Barrott flautaði, þar sem sóknarbrot Hughes hafði engin áhrif á skottilraun Eze eða Mark Flekken í marki Brentford.
18.08.2024 13:35
Sjáðu atvikið: Eze óheppinn að skora ekki draumamark
Athugasemdir