Watkins orðaður við United - Bayern sýnir Díaz áhuga - Arsenal hefur rætt við Eze
   sun 19. september 2021 11:00
Brynjar Ingi Erluson
„Ef ég sæi Ronaldo éta hestaskít þá myndi ég gera það sama"
Portúgalski sóknarmaðurinn Cristiano Ronaldo er þegar farinn að hafa gríðarlega áhrif á liðsfélaga sína hjá Manchester United en Lee Grant, þriðji markvörður liðsins, sagði frá skemmtilegri sögu í viðtali við talkSPORT á dögunum.

Það er ekkert launungarmál að Ronaldo hugsar vel um sig og hvað hann lætur ofan í sig.

Leikmenn United voru á liðshóteli á föstudegi og voru að undirbúa sig fyrir leik. Flestir leikmenn leyfa sér aukalega á föstudögum og fá sér eftirrétt en þegar þeir sáu hvað Ronaldo setti á diskinn þá þorði enginn í eftirréttinn.

Hann var mað avakadó, kínóa og harðsoðin egg. Leikmenn lögðu því ekki í það að vaða í köku eða slíkt eftir það.

„Þetta var föstudagskvöld og við vorum á hótelinu. Eins og þið kannski vitið að þá eru föstudagar hálfgerðir nammidagar þar sem menn fá sér eftirrétt. Menn fá sér eplapæ, köku og rjóma kannski en það þorði enginn í það. Það voru allir að spyrja hvað Cristiano væri með á disknum."

„Við vorum aðeins að grínast með það hvað hann gæti verið með á disknum og augljóslega var þetta mjög hrein fæða og eins hollt og það getur orðið. Það var eiginlega alltof fyndið að sjá að enginn þorði í þetta ruslfæði sem var á borðinu,"
sagði Grant í viðtalinu við talkSPORT.

Troy Deeney, fyrrum leikmaður Watford, ræddi við Sun um þessi áhrif Ronaldo og kom þetta honum ekkert á óvart.

„Ef ég sæi Ronaldo étandi hestaskít fyrir leiki þá myndi ég örugglega gera það sama. Það eru allir meðvitaðir um hversu vel hann hugsar um sig og guð minn almáttugur við sáum það þegar hann reif sig úr treyjunni þegar hann skoraði fyrir Portúgal gegn Írum og bætti markametið um daginn."

„Ég meina, sem atvinnumenn í fótbolta, þá erum við ekki í slæmu standi en það var mikið talað um þetta. Það voru allir afbrýðissamir yfir þessum magavöðvum,"
sagði Deeney.
Athugasemdir
banner
banner