Ruth Þórðar Þórðardóttir, miðjumaður Fylkis, var mjög svekkt eftir markalaust jafntefli liðsins gegn Breiðabliki í Pepsi-deild kvenna í kvöld.
Fylkisstúlkur voru talsvert nærri því að taka stigin þrjú í Árbænum heldur en gestirnir og viðurkennir Ruth að það sé svekkjandi að liðið hafi ekki náð að skora.
„Við fengum fullt af færum og hefðum bara átt að nýta þau,“ sagði Ruth eftir leikinn.
,,Yfirleitt hefði maður verið ánægður með jafntefli á móti Breiðabliki, en ekki í dag eins og leikurinn spilaðist. Við vorum miklu betri, fengum miklu betri færi og vorum bara miklu skipulagðari. Þetta gekk bara ágætlega fyrir utan að við náðum ekki að skora.“
Fylkisstúlkur voru mun hættulegri aðilinn í leiknum gegn Blikum, sem byrjuðu með sigri gegn sterku liði Stjörnunnar, og var ekki að sjá á þeim appelsínugulu að þær væru nýkomnar aftur upp í Pepsi-deildina.
„Við erum náttúrulega með frábært lið og ætlum okkur stóra hluti, þetta er bara það sem koma skal. Við erum engir nýliðar í þessari deild, við erum bara hér til að sanna okkur og sýna hvað við getum,“ sagði Ruth.
Athugasemdir























