Keflavík er komið í ansi erfiða stöðu eftir 4-2 tap gegn KA á Akureyri í dag. Fótbolti.net ræddi við Harald Frey Guðmundsson þjálfara liðsins eftir tapið.
Lestu um leikinn: KA 4 - 2 Keflavík
„Þetta byrjar skelfilega. Við gefum þeim tvö mörk í byrjun, við erum ekki komnir út úr rútunni sem við ferðuðumst með hingað fyrr en í seinni hálfleik. Mér finnst við ná að snúa þessu við í seinni hálfleik. Kemur fín orka í seinni hálfleik, skorum snemma og fáum 2-3 færi til að jafna leikinn þannig ég er ánægður með seinni hálfleikinn," sagði Haraldur Freyr.
„Það var eins og það hafi ekki verið kveikt á okkur. Við töluðum um það fyrir leikinn að fara hátt upp á völlinn fyrstu 10-15 mínúturnar og reyna pressa þá en það gekk ekki nógu vel. Við lendum 2-0 undir eftir fimm mínútur, það er ekki hægt að byrja fótboltaleiki svoleiðis."
Liðið er á botni deildarinnar en það eru 12 stig í pottinum.
„Það eru fjórir leikir eftir sem eru 12 stig og átta stig í öruggt sæti. Það segir sig sjálft að þetta er erfitt. Liðin sem eru fyrir ofan okkur eiga eftir að mætast innbyrðis þannig þau fá allavega eitt stig hvort. Þetta er þungt en það er ennþá séns," sagði Haraldur Freyr.