„Við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Það er alltaf erfitt að koma hingað upp á Skaga og við þurftum bara að jafna þá í baráttunni. Við gerðum það en komum svolítið ryðgaðir út í þetta í seinni hálfleik en síðan keyrðum við bara á þetta eftir 5-10 mínútur í seinni. Frábært að fá sigurtilfinninguna aftur og klára þennan leik.“ Sagði Kjartan Kári Halldórsson leikmaður FH og tveggja marka maður í 3-1 sigri FH á ÍA á Elkem vellinum á Akranesi í kvöld.
Lestu um leikinn: ÍA 1 - 3 FH
Eftir að lið ÍA hafði byrjað leikin ögn betur voru það FHingar sem tóku forystuna með marki frá Kjartani og stóð 1-0 í hálfleik. Skagamenn komu grimmir út í síðari hálfleikinn og jöfnuðu strax á 49. mínútu eftir hálfleikinn. Fór eitthvað um Kjartan og FH liðið á þeim tímapunkti?
„Nei, við vissum að þetta yrði erfitt. Að þeir yrðu þéttir til baka og að við þyrftum að finna leiðir. Leikurinn opnaðist síðan mikið og við vorum aldrei stressaðir að við værum að fara að missa þetta niður.“
Veðrið lék við leikmenn sem og vallargesti á Akranesi í kvöld og þótti Kjartani ekki slæmt að spila við þessar aðstæður á grasvelli Skagamanna.
„Þetta var alveg frábært. Geggjað blautt gras sem er best að spila fótbolta á svo þetta var mjög skemmtilegt.“
Allt viðtalið við Kjartan Kára má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir