Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 22. nóvember 2019 12:07
Magnús Már Einarsson
Freysi: Ég tel möguleikana fína
Icelandair
Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland mætir Rúmeníu á Laugardalsvelli þann 26. mars næstkomandi í undanúrslitum um sæti á EM. Ísland gat einnig mætt Ungverjum í undanúrslitum í umspilinu en dregið var í dag.

„Ég er þokkalega sáttur. Við erum að fara að spila heima og bæði lið eru sterk. Fólkið hérna heima þekkir Ungverja betur af því að þeir voru með okkur á EM 2016 en ég tel Rúmenana vera sterkari en Ungverjarnir," sagði Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, við Fótbolta.net í dag.

„Ég tel möguleikana fína. Þetta er mjög spennandi verkefni, að fá leik í mars þar sem allt er undir. Þetta er eins og bikarúrslitaleikur. Rúmenar eru með sama markmið og við að komast á EM. Þeir eru með gullkynslóðina sína á góðum aldri. Þetta verður erfitt verkefni en þetta er gríðarlega spennandi og skemmtilegt. Við trúum því að við klárum þetta."

Ungverjar líklegri í hinum leiknum
Dregið var í morgun um það hvaða lið verður á heimavelli í úrslitum í umspilinu. Sigurvegarinn úr leik Íslands og Rúmeníu leikur þar á útivelli gegn Ungverjalandi eða Búlgaríu.

„Það var svekkjandi. Það voru 50% líkur. Ég hef trú á að Ungverjarnir vinni Búlgaríu þannig að líklega verður það Búdapest. Það er stórkostleg borg hef ég heyrt. Við förum annað hvort þangað eða til Sofiu. Hólmar (Örn Eyjólfsson) segir að Sofia sé frábær. Þetta verður skemmtilegt verkefni. Auðvitað vildum við spila heima, það hefur helvíti mikið að segja í svona verkefnum."

Freyr segir að stefnt sé á að spila undanúrslitaleikinn í mars á Laugardalsvelli. „Það verður allt gert til þess að spila á Laugardalsvelli. Það verður plan B, sama hvað það verður. Það er ekki búið að ákveða það. Formaður, stjórn og framkvæmdastjóri taka endanlega ákvörðun um plan B. Öll vinnan er þannig að við spilum heima í mars og leikmenn og þjálfarar vonast eftir því," sagði Freyr.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner