Pep Guardiola þjálfari Manchester City var ósáttur með stóra ákvörðun í 2-0 sigri liðsins gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Man City vildi fá vítaspyrnu fyrir hendi en dómarinn dæmdi ekki neitt. Þegar hann var sendur í skjáinn ákvað hann að hunsa ráðleggingarnar úr VAR-herberginu og standa við upprunalega ákvörðun þar sem hann taldi handlegg varnarmannsins vera í eðlilegri stöðu. Þessu er Guardiola ekki sammála.
24.01.2026 19:08
Fór í skjáinn í fyrsta úrvalsdeildarleiknum og stóð fastur á sínu
„Af hverju ertu að spyrja mig að þessu? Úff," svaraði Guardiola með glettnum svip eftir að hafa dregið andan djúpt nokkrum sinnum með leikrænum tilburðum. „Dómarinn var að dæma sinn fyrsta leik og núna munu allir þekkja nafnið hans. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem dómari fer í skjáinn og breytir ekki ákvörðun sinni.
„Dómarinn sagði að varnarmaðurinn hafi verið í eðlilegri stöðu með handleggina," hélt Guardiola áfram og breiddi úr handleggjunum til að gefa í skyn að staða handleggja varnarmannsins hafi verið allt annað en eðlileg.
„Ég er nokkuð viss um að núna mun Howard Webb (yfirmaður dómarasambandsins) mæta í fjölmiðla til að útskýra hvers vegna þetta var réttur dómur. Þetta er eins og gerðist gegn Manchester United þar sem þeir voru aðeins í vafa eftir tæklinguna hans (Diogo) Dalot.
„Sú tækling er ástæðan fyrir því að Jeremy (Doku) gat ekki spilað í Noregi (gegn Bodö/Glimt). En þetta er í lagi, ég bíð eftir að Howard Webb útskýri í fjölmiðlum á morgun hvers vegna þetta er ekki vítaspyrna."
Guardiola vildi sjá Dalot fá rautt spjald í tapi Man City gegn Man Utd en bakvörðurinn fékk gult spjald. Hann fór hátt upp með takkana á elleftu mínútu og braut á Jeremy Doku.
Webb mætti í sjónvarpsverið hjá Sky Sports eftir umferðina til að útskýra hvers vegna Dalot fékk að líta gult spjald frekar en rautt.
Man City er í öðru sæti úrvalsdeildarinnar með 46 stig eftir 23 umferðir, fjórum stigum á eftir toppliði Arsenal sem á leik til góða gegn Man Utd á morgun.
Athugasemdir




