Bournemouth 3 - 2 Liverpool
1-0 Evanilson ('26)
2-0 Alex Jimenez ('33)
2-1 Virgil van Dijk ('45)
2-2 Dominik Szoboszlai ('80)
3-2 Amine Adli ('95)
1-0 Evanilson ('26)
2-0 Alex Jimenez ('33)
2-1 Virgil van Dijk ('45)
2-2 Dominik Szoboszlai ('80)
3-2 Amine Adli ('95)
Bournemouth tók á móti Englandsmeisturum Liverpool í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni og var fyrri hálfleikurinn nokkuð jafn.
Það var lítið um færi en þó tókst liðunum að skora þrjú mörk fyrir leikhlé. Fyrsta markið kom eftir slæm mistök hjá Virgil van Dijk á 26. mínútu sem gerðu Alex Scott kleift að vinna boltann í vítateig Liverpool og leggja hann út á Evanilson sem kláraði af stuttu færi.
Sjö mínútum síðar tvöfaldaði bakvörðurinn Álex Jiménez, sem lék úti á hægri kanti í dag, forystuna eftir frábæra stungusendingu frá James Hill. Bournemouth nýtti sér liðsmuninn til að skora þar sem Joe Gomez var utan vallar vegna meiðsla. Gomez var skipt út fyrir Wataru Endo strax eftir markið.
Englandsmeistararnir voru því komnir tveimur mörkum undir en fyrirliðinn Van Dijk kom þeim aftur inn í leikinn með skallamarki eftir hornspyrnu og lét þannig fyrirgefa sér mistökin frá því fyrr í leiknum.
Seinni hálfleikurinn var áfram í járnum þar sem Bournemouth var hættulegri aðilinn, en á lokakaflanum tókst Dominik Szoboszlai að jafna metin með marki úr aukaspyrnu.
Jöfnunarmarkið var óverðskuldað og var gríðarlega mikið fjör á lokamínútunum þar sem bæði lið sóttu til sigurs og skiptust á að eiga hættuleg marktækifæri, en boltinn rataði ekki í netið fyrr en seint í uppbótartímanum.
Bournemouth tók langt innkast á lokasekúndunum og úr varð mikill atgangur í vítateig Liverpool. Alisson bjargaði á línu en boltinn endaði hjá Amine Adli sem náði að pota honum í netið. Atvikið var skoðað gaumgæfilega í VAR-herberginu en að lokum dæmt mark og höfðu gestirnir ekki tíma til að jafna metin á ný.
Lokatölur urðu því 3-2 fyrir Bournemouth eftir afar dramatískar lokamínútur. Sigurinn er verðskuldaður þar sem lærlingar Andoni Iraola voru sterkari aðilinn.
Liverpool er í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar með 36 stig eftir 23 umferðir. Bournemouth er með 30 stig eftir þennan frækna sigur.
Athugasemdir





