Trent áfram hjá Real Madrid - Arsenal á eftir Alvarez - Bayern og Liverpool berjast um Diomande
banner
   lau 24. janúar 2026 22:00
Ívan Guðjón Baldursson
Spánn: Mbappé réði úrslitum í Villarreal
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Villarreal 0 - 2 Real Madrid
0-1 Kylian Mbappé ('47)
0-2 Kylian Mbappé ('92, víti)

Villarreal og Real Madrid áttust við í toppbaráttuslag í spænsku deildinni í kvöld og var staðan markalaus eftir tíðindalítinn fyrri hálfleik.

Real var sterkari aðilinn en skapaði lítið af færum fyrr en Kylian Mbappé tók forystuna í upphafi síðari hálfleiks. Hann var réttur maður á réttum stað í vítateig Villarreal þegar boltinn barst til hans eftir laglega takta hjá Vinícius Júnior. Mbappé skoraði af stuttu færi og leiddi Real Madrid þar til í uppbótartíma.

Leikurinn var áfram lokaður þar sem lítið var um færi, en í uppbótartíma innsiglaði Mbappé sigur Madrídinga með marki úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. Mbappé skoraði með svokallaðari Panenka vítaspyrnu, eins og liðsfélagi hans Brahim Díaz reyndi í úrslitaleik Afríkukeppninnar en klikkaði herfilega og tapaði svo.

Lokatölur 0-2 fyrir Real sem fer á topp deildarinnar með 51 stig eftir 21 umferð, tveimur stigum fyrir ofan Barcelona sem á leik til góða á morgun.

Villarreal situr eftir í fjórða sæti með 41 stig og leik til góða.

Þetta er þriðji sigur Real Madrid í röð í fjórða leik Álvaro Arbeloa við stjórnvölinn, eftir vandræðalegt tap gegn Albacete í fyrsta leik.
Athugasemdir
banner