Þrír leikir voru spilaðir í efstu deild í Sádi-Arabíu í dag þar sem stjörnum prýtt lið Al-Ahli vann þægilegan sigur á Neom SC.
Al-Ahli er í öðru sæti og var þetta sjöundi sigur liðsins í röð í deildinni. Staðan var markalaus í leikhlé en lærlingar Matthias Jaissle voru sterkari aðilinn og skoruðu þrjú mörk í síðari hálfleik.
Ivan Toney skoraði úr vítaspyrnu og lagði svo upp fyrir Riyad Mahrez áður en Enzo Millot innsiglaði sigurinn eftir stoðsendingu frá Franck Kessié. Al-Ahli skoraði mörkin á tólf mínútna kafla í síðari hálfleik og fékk leikmaður Neom að líta rauða spjaldið.
Édouard Mendy, Galeno og Roger Ibanez voru einnig í byrjunarliði Al-Ahli á meðan Alexandre Lacazette, Ahmed Hegazy og Luís Maximiano voru meðal byrjunarliðsmanna í liði Neom, sem er í neðri hluta deildarinnar með 21 stig eftir 17 umferðir.
Al-Ahli er með 40 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Al-Hilal sem er á ótrúlegu skriði og með einn leik til góða.
Al-Ettifaq hafði þá betur gegn Al-Kholood þökk sé tvennu frá Khalid Al-Ghannam sem sat á bekknum í fyrri hálfleik en breytti leiknum eftir leikhlé.
Georginio Wijnaldum, Moussa Dembélé og Ondrej Duda voru meðal byrjunarliðsmanna í liði Al-Ettifaq sem er í sjötta sæti með 29 stig eftir 17 umferðir.
Að lokum gerðu Al-Khaleej og Al-Shabab markalaust jafntefli. Þar mættust fyrrum úrvalsdeildarleikmennirnir Joshua King og Wesley Hoedt.
Neom 0 - 3 Al-Ahli
0-1 Ivan Toney ('55, víti)
0-2 Riyad Mahrez ('64)
0-3 Enzo Millot ('67)
Rautt spjald: Khalifah Al-Dawsari, Neom ('61)
Al-Kholood 1 - 2 Al-Ettifaq
1-0 Ramiro Enrique ('16)
1-1 Khalid Al-Ghannam ('50)
1-2 Khalid Al-Ghannam ('83)
Al-Khaleej 0 - 0 Al-Shabab
Athugasemdir




