Trent áfram hjá Real Madrid - Arsenal á eftir Alvarez - Bayern og Liverpool berjast um Diomande
banner
   lau 24. janúar 2026 22:50
Ívan Guðjón Baldursson
Van Dijk: Vindurinn var erfiður
34 ára Van Dijk er með eitt og hálft ár eftir af samningi.
34 ára Van Dijk er með eitt og hálft ár eftir af samningi.
Mynd: EPA
Hann er búinn að skora 3 mörk í 32 leikjum á tímabilinu.
Hann er búinn að skora 3 mörk í 32 leikjum á tímabilinu.
Mynd: EPA
Virgil van Dijk fyrirliði Liverpool var mjög ósáttur eftir lokaflautið í dramatískum tapleik gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Heimamenn í liði Bournemouth skoruðu sigurmarkið eftir langt innkast á lokasekúndum uppbótartímans. Van Dijk kvartaði undan markinu þar sem honum leið eins og hann hafi orðið fyrir ólöglegri blokkeringu.

Eftir lokaflautið óð hann beint að dómarateyminu til að ræða málin ásamt liðsfélaga sínum Mohamed Salah og þjálfaranum Arne Slot.

„Ég er mjög vonsvikinn, það er erfitt að tapa á síðustu mínútunni. Við lögðum mikið á okkur til að koma til baka eftir að hafa lent tveimur mörkum undir og þetta eru mikil vonbrigði. Mér leið eins og ég hafi verið blokkeraður en hvorki dómarinn né VAR-herbergið dæmdu á það. Sama þó ég standi hér og segi að þetta átti ekki að vera mark þá breytir það ekki raunveruleikanum," sagði Van Dijk.

Fyrirliðinn átti sök á fyrsta marki leiksins eftir langa sendingu yfir vörnina. Van Dijk misreiknaði flug boltans og hitti hann ekki sem gerði Alex Scott kleift að stinga sér framfyrir og stela boltanum. Scott gaf hann út í teiginn þar sem Evanilson skoraði af stuttu færi til að taka forystuna. Van Dijk bætti upp fyrir mistökin með að skora eftir hornspyrnu undir lok fyrri hálfleiks.

„Í fyrra markinu var erfitt að meta flug boltans, vindurinn gerði mjög erfitt fyrir. Það var ekki mikið vandamál að fá það mark á sig en svo þegar við fengum annað mark á okkur þá varð brekkan brött. Það er ekki gott að fá tvö mörk á sig með svona stuttu millibili. Við skoruðum sem betur fer mikilvægt mark skömmu fyrir leikhlé til að koma okkur aftur inn í leikinn."

Liverpool situr í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar með 36 stig eftir 23 umferðir.

„Við erum að reyna að finna stöðugleika á tímabilinu en það er að reynast erfitt. Við stöndum allir þétt saman og vinnum að sama markmiði. Við eigum stundum mjög góða leiki en náum ekki að halda stöðugleika í frammistöðunum."
Athugasemdir
banner
banner
banner