Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 24. maí 2022 23:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Óréttlætanlegir stjórnunarhættir og mönnum bannað að spila - „Átti bara að vera gönguferð í garðinum"
Í leik með U21 landsliðinu
Í leik með U21 landsliðinu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Esbjerg
Í leik með Esbjerg
Mynd: Esbjerg
Þokkalega sáttir eftir æfingu
Þokkalega sáttir eftir æfingu
Mynd: Esbjerg
Harðstjórinn Hyballa
Harðstjórinn Hyballa
Mynd: Getty Images
Vrabec tók við en þá máttu sumir leikmenn ekki spila
Vrabec tók við en þá máttu sumir leikmenn ekki spila
Mynd: Esbjerg
Van der Vaart
Van der Vaart
Mynd: Getty Images
Andri Rúnar Bjarnason
Andri Rúnar Bjarnason
Mynd: Fótbolti.net - Tom
Rosaleg gulrót að spila með landsliðinu
Rosaleg gulrót að spila með landsliðinu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Auðvitað vil ég ekkert endilega þurfa að spila í annarri deild en það er efitt að líta hátt á sig þegar maður fellur með liðinu sínu.
Auðvitað vil ég ekkert endilega þurfa að spila í annarri deild en það er efitt að líta hátt á sig þegar maður fellur með liðinu sínu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er betra að horfa í eigin barm heldur en að kenna einhverjum öðrum um.
Það er betra að horfa í eigin barm heldur en að kenna einhverjum öðrum um.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Esbjerg féll í dönsku C-deildina á dögunum og hefur það vakið mikla athygli í Danmörku. Esbjerg féll úr efstu deild, Superliga, vorið 2020 og ætlaði sér beint aftur upp í fyrra og aftur í ár. Í fyrra var liðið einu stigi frá því að fara upp og á þessari leiktíð gengu hlutirnir einfaldlega ekki upp. Eftir tap gegn Fremad Amagar 18. maí varð ljóst að Esbjerg yrði í þriðju efstu deild á næsta tímabili.

Ísak Óli Ólafsson er leikmaður Esbjerg og ræddi hann við Fótbolta.net í dag. Ísak er U21 landsliðsmaður og á einnig að baki tvo A-landsleiki. Hann er miðvörður sem verður 22 ára eftir rúman mánuð.

Ísak var keyptur til Esbjerg frá SönderjyskE síðasta sumar en hann hafði verið á láni hjá Keflavík í upphafi sumars. Ísak var einn af mörgum leikmönnum sem voru fengnir til Esbjerg síðasta sumar.

„Þegar ég kem frá Keflavík síðasta sumar þá var stemningin þannig að þetta ætti bara að vera gönguferð í garðinum þetta tímabil hjá okkur. Ég var búinn að horfa á 1. deildina og dró það svolítið í efa því ég sá að það voru góð lið í deildinni. Eigendurnir töluðu eins og þetta ætti bara að vera skítlétt fyrir okkur og ekkert kom til greina nema að labba upp úr deildinni," sagí Ísak.

„Leikmenn og starfsfólkið í kring vissi að þetta yrði erfiðara en það og svo byrjaði þetta ekkert sérstaklega vel en þó ekki hræðilega."

Sumir máttu ekki spila
Peter Hyballa var þjálfari Esbjerg síðasta sumar, hafði tekið við af Ólafi Kristjánssyni sem var rekinn fyrir ári síðan. Leikmenn sendu frá sér bréf til leikmannasamtakanna og þjálfarinn var kærður þangað.

„Þá fer allt í háaloft, einhverjir leikmenn máttu í kjölfarið ekki spila og þá þurfti að nota U19 í mörgum stöðum í liðinu. Það leysist svo þegar þjálfarinn er rekinn vegna hegðunar sinnar. Þá er ráðinn inn annar þjálfari, Roland Vrabec, sem byrjar á því að reyna koma strúktúr á hlutina í kringum félagið. En þá kom upp að menn sem fengu ákveðið mikið greitt máttu ekki spila. Ef þú varst með ákveðið mikið í laun og svo ef þú varst yfir 22-23 ára þá máttiru allt í einu ekki æfa með liðinu. Andri reyndar æfði með liðinu en vegna aldurs þá mátti hann í raun ekkert spila. Haustið var því rosalega sérstakt og erfiður tími."

Andri Rúnar Bjarnason var á mála hjá Esbjerg á árunum í tæplega eitt og hálft ár. Hann gekk í raðir ÍBV í desember.

Reyndi að brjóta alla niður
Áður en við ræðum aðeins Vrabec, lendir þú persónulega í Hyballa?

„Í raun og veru lentu allir í honum sem leyfðu honum að lenda í sér. Hann reyndi við alla, reyndi að brjóta alla niður en ef þú sýndir honum að hann gat ekki brotið þig niður þá skipti hann bara yfir í næsta. Hann reyndi alveg að láta mig heyra það en maður lét það bara ekki á sig hafa, lét það bara 'slæda'."

Í hvaða heimi átti þessi nálgun hans að virka?

„Það er umtalað hvort þetta átti gerast, hvort að það átti bara að hreinsa mönnum út. Þetta eru spurningar sem menn hafa spurt sig. Þetta getur ekki virkað en það fyndna er, er að ef hann fengi bara að vera með keilur og æfingar þá er hann frábær þjálfari. Hann er mikill fótboltaheili en mannlegi þátturinn er bara enginn. Ég sá að Andri veitti viðtal um þetta á sínum tíma. Þetta var þannig að hann var að láta okkur hlaupa 18 km á æfingum og það meiddust fjórtán fyrstu vikuna. Það er ekki hægt að réttlæta þetta."

Sagðist vera sjálfur á bakvið ákvörðunina
Var Vrabec á bakvið það að sumir máttu ekki spila eða kom það frá eigendunum?

„Út á við sagði hann við leikmennina að þetta væri hans ákvörðun en það má efast um hvort að það hafi verið raunin."

Vendipunkturinn að komast ekki í efri hlutann
Að haustinu, tímabilið fór afleitlega af stað, tvö stig eftir fimm leiki en svo rétti liðið skútuna við og vann þrjá leiki í næstu fjórum leikjum.

„Þessi stigasöfnun var ekkert frábær en klárlega nóg til að halda sér uppi. Markmiðið var samt að fara upp og við sáum það mjög fljótlega að við myndum ekki ná því markmiði því við vorum bara ekki nógu góðir sem lið. Þetta var bölvað bras í leikjunum hjá okkur. Þegar vetrarfríið byrjaði í desember vorum við þremur stigum frá efri hlutanum. Við horfðum í að liðið fyrir ofan okkur átti aðeins auðveldara leikjaprógram og yrðum að ná í úrslit í fyrstu leikjunum eftir frí til að enda í efri hlutanum."

Leikirnir voru fjórir eftir vetrarfrí fyrir tvískiptingu, þrír þeirra töpuðust og eitt stig niðurstaðan. Esbjerg var því tveimur stigum fyrir ofan fallsæti þegar fallumspilið byrjaði. Vrabec var rekinn áður en fallumspilið byrjaði.

„Það að við komumst ekki í efri hlutann var vendipunkturinn held ég. Hin liðin þar voru mun betur undirbúin fyrir þann bardaga. Á meðan vorum við að ljúga að okkur sjálfum að við værum eitthvað betri en við í raun vorum."

Ákváðu að spila strákum af svæðinu
Í lokaumferðinni fyrir tvískiptingu fékk Ísak rautt spjald þegar hann tók Sævar Atla Magnússon niður í leik gegn Lyngby.

„Ég strauja frænda minn niður, hann fiskar mig út af og glottir svo í andlitið á mér helvítíð á honum. Aðstoðarþjálfarinn tekur við í einn leik og svo kemur U19 þjálfarinn inn. Hann, Rafael van der Vaart og markmannsþjálfarinn taka við liðinu og eftir það spila ég ekkert fyrir utan að koma inná í þremur leikjum. Niðurstaðan var að spila strákum frá Esbjerg sem ég skil alveg þegar staðan er jafnslæm og hún var. Það gekk ekki betur en að við fengum einhver fjögur stig úr fyrstu átta leikjunum og erum fallnir."

Greinilega fílaði mig ekki
Ísak kom svo inn í liðið í síðasta leik þegar liðið lagði Hobro á útivelli en þá var liðið þegar fallið.

„Ég átti að vera í því hlutverki að eiga alltaf að vera klár en svo var ég aldrei settur í liðið. Þegar ég spurði spurninga þá fékk ég engar almennilegar ástæður fyrir því. Ástæðan var bara að liðinu gekk ekki neitt og hann greinilega fílaði mig ekki, gaf mér aldrei sénsinn til að sýna hvort ég væri rétti maðurinn í liðið. Það er þannig þegar þú ert kominn á fjórða/fimmta þjálfara þá er þetta svolítið út úr þínum höndum."

Fyrri hlutinn góður en falleinkunn eftir áramót
Varstu búinn að vera sáttur með eigin frammistöðu áður en þú fékkst rauða spjaldið?

„Fyrir jól þá fannst mér ég hafa átt mjög gott hálft tímabil. Svo skaddaði ég liðband í hnénu í fyrsta leik í fyrsta leik á undirbúningstímabilinu fyrir seinni hlutann. Eftir það æfði ég lítið, spilaði einn leik og svo leikinn á móti Lyngby. Það er erfitt fyrir mig að gefa sjálfum mér einkunn, er auðvitað ekki sáttur með rauða spjaldið sem var klaufalegt. Heilt yfir fannst mér fyrri hlutinn góður en get eiginlega bara gefið mér, og liðinu, falleinkunn eftir áramót."

Þarft að reyna ljúga að sjálfum þér
Fyrir leikinn gegn Fremad Amager, höfðuð þið þá trú á því að þið gætuð unnið rest?

„Þegar lið eru í svona miklu bulli þarftu svolítið að ljúga að sjálfum þér. Þú þarft að hvetja þig áfram, segja að þetta sé hægt og liðið gerði það alveg. Í tveimur leikjum í fallumspilinu komumst við í 2-0, í öðrum þeirrra endar þetta 2-2 og í hinum 2-3 á móti einmitt Fremad Amager. Ef við hefðum unnið Fremad Amager værum við með jafnmörg stig og þeir, með lokaumferðina framundan og betri markatölu. Þessi kafli í þessu bulli var bara of langur."

Veit í raun og veru enginn hvað mun gerast
Hvað gerist svo eftir að þið eru fallnir, voru einhverjir krísufundir?

„Leikmenn hafa svolítið talað sín á milli en það er rosaleg óvissa hverjir verða áfram og hvort að eigendurnir verða yfir höfuð áfram. Stuðningsmenn eru ekki sáttir og allir vita að þeir vilja fá eigendurnir í burtu. Það veit í raun og veru enginn hvað mun gerast og vikurnar núna eru snúast bara um að klára tímabilið."

„Það var rosalega gott að vinna síðasta leik, líka fyrir mig að sýna að ég átti heima í þessu liði. Það gefur bara svo lítið þegar það er ekkert undir í leikjunum."


Betra að horfa í eigin barm en að kenna öðrum um
Eruð þið leikmenn að kenna ykkur sjálfum út í stöðuna eða eru menn pirraðir út í stjórnarmenn?

„Það sem gerðist síðasta sumar, áföllinn með þann þjálfara, getur haft langvarandi áhrif á leikmenn. Við fengum ekki nægilega mikla hjálp við að koma okkur í gegnum það bíó. Það eru einhverjir leikmenn sem taka þetta á sig og mér finnst það vera rétta leiðin því maður getur alltaf bent á aðra en á endanum er þetta manni sjálfum að kenna. Það er betra að horfa í eigin barm heldur en að kenna einhverjum öðrum um. Það finnst mér allavega persónulega."

Klefinn ekki almennilega jafnað sig
Hefur einhver í liðinu óskað eftir alvöru svörum frá eigendum hver þeirra hugsun hafi verið með þessari þjálfararáðningu síðasta sumar?

„Já, menn hafa alveg reynt að fá einhver svör en þeim var bara ýtt í burtu og sagt að fara í vinnuna. Ég er ekki viss um hvort eigendurnir viðurkenni mistök með þessari ráðningu."

„Eftir síðasta sumar fannst mér sumir leikmenn leita í að fá ekki athygli á sig því það var svakaleg athygli á félaginu. Fyrir mitt leyti þá fannst mér þetta ekkert hafa nein svakaleg áhrif á mig en mér fannst þetta hafa áhrif á klefann sem mér finnst ekki ennþá hafa almennilega jafnað sig."


Efitt að líta hátt á sig þegar maður fellur með liðinu sínu
Hvernig horfiru á þína stöðu hjá félaginu?

„Ég á tvö ár eftir af samningi við félagið. Ég þarf að setjast niður, bæði með mönnum hjá félaginu og mínum umboðsmanni. Auðvitað vil ég ekkert endilega þurfa að spila í annarri deild en það er efitt að líta hátt á sig þegar maður fellur með liðinu sínu. Ég fer til Íslands eftir að tímabilið er búið, tek nauðsynlegt frí og fer svo bara að ræða mín mál."

Hlakkar til að spila með landsliðinu
Áður en að fríinu kemur þá er landsliðsverkefni í júní.

„Það er rosaleg gulrót eftir svona vesen að fá að hitta strákana og spila alvöru leiki með góðum þjálfurum, við góðar og stabílli aðstæður en maður hefur vanist á tímabilinu," sagði Ísak að lokum.

Esbjerg á einn leik eftir, gegn botnliði Jammerbugt á laugardag á heimavelli.

Sjá einnig:
Ólafur hefði verið rekinn þó hann hefði komið Esbjerg upp
Ísak Óli til Esbjerg (Staðfest) - Kynntur með rosalegu myndbandi
Kvartað yfir arftaka Óla Kristjáns - Sagður mikill harðstjóri
Standa við bakið á Hyballa og segir leikmenn skorta fagmennsku
Van der Vaart til starfa hjá Esbjerg
Ísak Óli um gamla þjálfarann - „Þessi svokallaði 'terror coach'"
Óli skaut létt á Esbjerg: Allt sem hafði verið á undan var ekki nógu gott
Andri var orðinn of gamall fyrir Esbjerg - „Ekkert eðlilega þreytt"
„Held að við höfum flestallir kveikt á því að þetta var með ráðum gert"
Athugasemdir
banner
banner
banner