Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 09. mars 2022 21:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Held að við höfum flestallir kveikt á því að þetta var með ráðum gert"
Andri á landsliðsæfingu.
Andri á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Peter Hyballa.
Peter Hyballa.
Mynd: Getty Images
Sóknarmaðurinn Andri Rúnar Bjarnason var í skemmtilegu viðtali í útvarpsþættinum Fótbolta.net á dögunum.

Andri var leikmaður Esbjerg í Danmörku áður en hann kom heim og samdi við ÍBV seint á síðasta ári.

Á síðasta ári voru furðulegir tímar hjá Esbjerg eftir að Ólafur Kristjánsson var rekinn sem þjálfari liðsins. Þjóðverjinn Peter Hyballa tók við og hann var vægast sagt umdeildur í starfi.

Leikmenn Esbjerg voru mjög ósáttir við störf hans og sögðu hann mikinn harðstjóra. Þeir sendu frá sér sláandi bréf þar sem kvartað var undan refsingum hans, nektarmyndum, hótunum og níði. Félagið stóð samt við bakið á honum, þangað til hann hætti.

Andri var spurður út í þennan tíma. Hann telur að eigendur félagsins hafi verið með þetta allt saman planað. Eigendurnir vildu losna við ákveðna leikmenn.

„Þýski þjálfarinn hristi upp í þessu. Þið hafið kannski heyrt sögur eða tvær. Ég trúi ekki öðru en að það hafi verið eitthvað plan; að hann átti að hrista upp í hlutunum, að hann átti að fá menn sem voru á stórum samningum til að hata fótbolta og vilja fara eitthvað annað. Það gekk að einhverju leyti og þeir hreinsuðu vel til," sagði Andri.

„Ég held að við höfum flestallir kveikt á því að þetta var með ráðum gert. Ég get komið með dæmi um fyrstu tvo dagana. Fyrsti dagurinn segja þeir 'jójó-test' og það á að vera hlaup sem er frekar hratt upp og á að taka max sjö mínútur. Þeir gerðu þetta með flautu þannig að hann var sjálfur að ákveða 'stigin'. Þetta endaði á að vera heillengi og menn voru alveg búnir á því. Svo var ellefu á ellefu, 60 mínútna spil strax eftir það. Það var fyrsta æfing eftir sumarfrí."

„Daginn eftir vorum við samtals í fimm tíma út á velli, bara í löngum sendingaræfingum með stigvaxandi hlaupum. GPS-mælirinn sagði að meðaltalið í háhraðahlaupum - ekki alveg sprettur, heldur 75 prósent eða hraðar - hefði verið 18 kílómetrar hjá leikmönnum þann dag. Á annarri æfingu. Það voru 14 meiddir daginn eftir."

„Restin var í anda við þetta. Þetta var efni í góða þáttaröð... þeir misstu af Netflix-tækifæri," sagði Andri.

Menn voru bara píndir undir stjórn Hyballa, en hægt er að hlusta á alla umræðuna hér að neðan.

Sjá einnig:
Andri var orðinn of gamall fyrir Esbjerg - „Ekkert eðlilega þreytt"
Útvarpsþátturinn - Fótboltafréttir, Andri Rúnar og Vanda
Athugasemdir
banner
banner
banner