Arsenal gerir tilboð í Gyökeres - Man Utd skipuleggur tilboð í Delap - Spurs býðst Sane
   mán 26. maí 2025 16:19
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Fannst ótrúlega fallegt að geta stigið inn í þetta og hjálpað til"
Kvenaboltinn
Sandra í marki FH.
Sandra í marki FH.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Sigrinum fagnað.
Sigrinum fagnað.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Fyrrum aðalmarkmaður landsliðsins, Sandra Sigurðardóttir, reif hanskana af hillunni í síðustu viku til að hjálpa FH sem varð fyrir áfalli þegar Aldís Guðlaugsdóttir sleit krossband í leiknum gegn Þrótti. Aldís hafði farið frábærlega af stað í mótinu og var besti markmaður deildarinnar í upphafi móts.

Sandra er mikill reynslubolti og var um árabil besti markmaður landsins. Hún var aðalmarkmaður landsliðsins síðustu ár ferilsins og varði mark liðsins á EM 2022.

Hún lagði hanskana á hilluna fyrir tímabilið 2023 en gerði það samt ekki alveg því hún lék það ár tvo leiki með Grindavík, tvo leiki með Val og var valinn í landsliðið um haustið.

Lestu um leikinn: FH 2 -  1 Breiðablik

Hún ræddi við Fótbolta.net eftir sigur FH á Breiðabliki á föstudag.

„Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem hefur verið reynt að fá mig í að aðstoða eða byrja aftur. FH hafði ekki mikinn tíma, ég bý í Hafnarfirði, vinn í Hafnarfirði og fannst eitthvað ótrúlega fallegt að geta stigið inn í þetta og hjálpað til."

„Ég tala nú ekki um út af því að ég er vonandi búin að skóla Aldísi eitthvað til og æfa með henni. Ég finn rosalega til með henni. Mig langaði að standa með þeim aðeins og reyna gera eitthvað með þeim,"
sagði Sandra sem var með Aldísi hjá Val á sínum tíma.

Guðni Eiríksson, þjálfari FH, ræddi um markmannsmálin í viðtali eftir leikinn.

„Það lýsir Aldísi svo vel að slíta krossband snemma gegn Þrótti en klára leikinn. Hún er grjóthörð, hennar karakter, vitandi að við værum ekki með neinn til að leysa hana af. Sem betur fer var Sandra til í slaginn og frábært að þekkja hana og geta leitað til hennar. Hún, held ég, hafi haft mjög gaman af. Hún hjálpar okkur núna, tekur næstu leiki með okkur. Það er kostur að geta leitað til hennar," sagði þjálfarinn.
Uppbótartíminn - Nýtt lið á toppnum og mikilvægir landsleikir
Athugasemdir
banner