Fótbolti.net sagði frá því fyrir tveimur vikum síðan að Sævar Atli Magnússon væri nálægt samkomulagi við norska félagið Brann.
Nú er greint frá því að Sævar sé væntanlegur til Bergen á morgun til að skoða aðstæður og fara í læknisskoðun. Nettavisen segir að munnlegt samkomulag sé í höfn.
Nú er greint frá því að Sævar sé væntanlegur til Bergen á morgun til að skoða aðstæður og fara í læknisskoðun. Nettavisen segir að munnlegt samkomulag sé í höfn.
„Þegar við höfum sýnt honum félagið, borgina og fólkið þá verður hann algjörlega sannfærður um að Brann er rétti staðurinn fyrir hann," segir Freyr Alexandersson, þjálfari Brann, við Bergens Avisen.
Sævar Atli er runninn út á samning hjá Lyngby og yfirgefur félagið eftir fall þess úr dönsku úrvalsdeildinni. Sævar lék undir stjórn Freys hjá Lyngby og Leiknismennirnir verða því sameinaðir á ný. Fyrir hjá Brann er einn íslenskur leikmaður, Eggert Aron Guðmundsson.
Sævar getur ekki fengið leikheimild með Brann fyrr en þegar norski glugginn opnar 12. júlí og mun hann halda í sumarfrí eftir að hafa gengið frá samningum við Brann. Liðið situr í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar.
Sævar er 24 ára fjölhæfur sóknarmaður sem getur bæði spilað í fremstu línu og á miðsvæðinu. Hann hefur verið hjá Lyngby frá sumrinu 2021 þegar hann var keyptur frá uppeldisfélaginu Leikni.
Athugasemdir