KA vann gríðargóðan og dýrmætan 5-0 sigur á Víking Ó. á Akureyrarvelli fyrr í kvöld. Þar með rifu þeir gulklæddu sig ágætlega frá fallsvæðinu og geta nú farið að gera sig gilda í Evrópubaráttu. Elfar Árni Aðalsteinsson gerði þrennu fyrir KA og lagði auk þess upp eitt mark fyrir Almarr Ormarsson.
Lestu um leikinn: KA 5 - 0 Víkingur Ó.
„Mér fannst við vera mjög góðir í dag. Stjórnuðum leiknum allan tímann og vorum alveg með fyrri hálfleikinn. Vorum værukærir til að byrja með í seinni og fáum á okkur vítaspyrnu sem Rajko ver glæsilega. Það er held ég kannski snúningspunkturinn. Þeir brotna við það og eftir að við náðum þriðja markinu var þetta aldrei spurning,” sagði Elfar Árni umbeðinn um sín viðbrögð við hvernig leikurinn hafði spilast.
Elfar hafði ekki skorað síðan 24.júní er hann gerði 2 mörk gegn KR, en gerði nú þrennu á korteri;
„Þegar maður skorar fær maður einhvern veginn meiri trú á sjálfum sér og þá virðast mörkin detta frekar fyrir mann og ég er bara mjög sáttur með að skora í dag„
„Auðvitað reynir maður alltaf að fara eins ofarlega og maður getur en það er þannig í þessu líka að það er stutt niður og stutt upp og ef maður nær að tengja sigurleiki fer maður mikið upp töfluna. Við þurfum bara að halda áfram á þessari braut,” sagði markaskorarinn Elfar Árni um töfluna í deildinni og Evrópubaráttuna.
Allt viðtalið má sjá í myndbandinu hér að ofanverðu.
Athugasemdir